Gróskan í austfirskri útgáfu sjaldan verið meiri
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. des 2022 10:23 • Uppfært 09. des 2022 12:21
Um 20 austfirskar bækur er að finna í jólabókaflóðinu að þessu sinni. Nokkrar þeirra voru kynntar í árlegri Rithöfundalest sem fór um Austurland nýverið.
„Flóran er mjög fjölbreytt. Þar eru ljóðabækur, skáldsögur, þýðingar og sagnfræðileg rit,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar í þættinum Að austan sem sendur var út á sjónvarpsstöðinni N4 í gærkvöldi, en lestin er samstarfsverkefni menningarstofnana á Austurlandi.
Þar var sýnt frá upplestri höfunda á Skriðuklaustri. Þar á meðal voru Anna Karen Marinósdóttir, Benný Sif Ísleifsdóttir, Jónas Reynir Gunnarsson, Jón Pálsson, Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Smári Geirsson, Jón Knútur Ásmundsson, Unnur Sveinsdóttir, Björn Ingvarsson og Magnús Stefánsson frá Félagi ljóðaunnenda.
„Ég held að gróskan í austfirskri útgáfu hafi sjaldan verið meiri. Að þessu sinni sáum við okkur leik á borði með að vera alfarið með austfirska höfunda og létum vaða á það. Það er enginn í lestinni sem við getum ekki sagt að eigi sér rætur á Austurlandi.“