Góður liðsauki björgunarsveitar á Héraði

Á miðvikudagskvöld var stofnuð unglingadeild hjá Björgunarsveitinni Héraði á Egilsstöðum og ber hin nýja deild nafnið Héraðsstubbarnir. Undanfarin ár hefur verið samstarf við félagsmiðstöðvar með unglingastarf, sem leiddi til stofnunarinnar.

head49948009ce1ef.jpg Guðlaug Björgvinsdóttir segir að haldinn hafi verið sérstakur stofnfundur. Mætingin hafi verið framar öllum vonum. ,,Við töldum reyndar ekki en það voru mjög margir og hingað kom fólk frá Mývatni, Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði svo eitthvað sé nefnt,“ segir Guðlaug. ,,Fundurinn gekk mjög vel fyrir sig og mættu tuttugu ungmenni, en það eru þó ekki alveg allir af þeim sem hafa verið að koma. Við fengum mikið af gjöfum og þökkum kærlega fyrir það.  Einnig þökkum við þá aðstoð og hlýhug sem okkur hefur hvarvetna mætt í þessu starfi. Stofnendur unglingadeildarinnar rituðu nafn sitt á skinn sem síðan verður hengt upp í björgunarsveitarhúsinu til minningar um þetta skref.“  Stjórn Héraðsstubbanna skipa þau Sandra Ester Jónsdóttir varamaður, Björgvin Jóhannsson, Elvar Bjarki Gíslason, Einar Þór Heimisson, Ágúst Bjarni Arnarsson og Erla Guðný Pálsdóttir. Elvar Bjarki er formaður en að öðru leiti er stjórnin ekki búin að skipta á milli sín verkum.  Bloggsíða unglingadeildarinnar er www.heradsstubbar.bloggar.is þar sem á að vera hægt að fylgjast með því sem þau eru að gera.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar