Hæna í óskilum á Vopnafirði

Vopnfirðingar hafa undanfarna daga velt vöngum yfir hver sé eigandi hænu sem fannst í bænum á þriðjudag. Ekki er ljóst hvernig hænan endaði í þorpinu en ekki er óþekkt að þær húkki sér far með bifreiðum.

„Allt í einu dúkkaði upp hæna á sólpallinum við húsið hér beint á móti. Þau sem þar búa báðu mig að taka hana því ég hef verið með hænur í kofa við húsið mitt,“ segir Baldur Hallgrímsson, íbúi á Vopnafirði.

Hún hefur dvalið í kofanum síðan í góðu yfirlæti. „Hún hefur það ágætt þótt hún hafi ekki verpt enn. Hún er nokkuð reitt, það vantar á hana stélið og hún var dálítið taugatrekkt þegar ég var að handsama hana.“

Reynt hefur verið að hafa uppi á eiganda hænunnar, meðal annars með því að auglýsa eftir honum í hópi Vopnfirðinga á Facebook án árangurs. „Það er búið að hringja á ýmsa bæi og spyrjast fyrir. En það er enginn viss. Nú til dags eru flestir farnir að merkja hænurnar,“ segir Baldur.

Ákveðið hefur verið að fara með hænuna inn í Síreksstaði, að minnsta kosti þar til sannanlegur eigandi finnst. Ábúendur þar hafa saknað hænu úr safni sínu frá því á laugardag.

Baldur bendir á að mögulegt sé að hænan hafi hrakist undan suðvestan hvassviðri á mánudag. „Ég fór í gönguferð á mánudag og þá fannst mér ég sjá fiðurfénað skjótast yfir götuna. Ég hugsaði ekki meira um það.“

Frá Síreksstöðum og út í þorpið eru 16 km í loftlínu eða yfir 20 km eftir vegi. Baldur telur ekki ólíklegt að hænan hafi húkkað sér far með bíl, að minnsta kosti hluta leiðarinnar. Slíkt er ekki óþekkt.

Í tengslum við hænuna nú hafa Vopnfirðingar rifjað upp sögu af sex hænum frá bænum Krossavík, sem er gegnt þorpinu í austanverðum firðinum, sem komu sér fyrir á hásingu jeppabifreiðar sem keyrði austur í Jökulsárhlíð yfir Hellisheiði. Þrjár þeirra fundust við bæinn Vindfell, nokkru utar með firðinum, en hinar komu fram á Hellisheiðinni og í Hlíðinni. Munu þær hafa verið orðnar nokkuð ráðvilltar og fegnar er þær komust heim.

Mynd: Baldur Hallgrímsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar