Halda íbúafund um Franska daga

Íbúafundur verður haldinn í kvöld um undirbúning bæjarhátíðarinnar Franskra daga á Fáskrúðsfirði. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir allar hugmyndir og pælingar veg þegnar.

„Við viljum með þessum fundi ítreka þá hugsun þeirra sem standa að hátíðinni að nefndin er sannarlega ekki lokaður hópur og allir eru velkomnir. Það hefur verið frábært fyrir mig að vinna með þessari frábæru nefnd og taka þátt í þeirri stemningu sem ríkir innan hennar,“ segir Daníel Geir Moritz, framkvæmdastjóri hátíðarinnar.

Frönsku dagarnir vísa til Frakklandstengsla Fáskrúðsfjarðar sem mynduðust þegar Frakkar komu til fiskveiða við Íslandsstrendur frá 1614 fram til um 1914. „Hátíðin í ár er í fullum undirbúningi og förum við að tilkynna nöfn sem koma fram á henni,“ segir Daníel Geir.

Fundurinn verður haldinn klukkan 20:30 í félagsaðstöðu eldri borgara, Glaðheimum. „Allar hugmyndir, ábendingar, pepp og pælingar eru velkomnar á íbúafundinn, hvort sem fólk vill svo koma í nefndina eða ekki. Það er alltaf gaman á Frönskum dögum og alltaf gaman að hitta gott fólk og ræða hátíðina.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar