Halda vinnufundi hálfsmánaðarlega á kaffihúsum

„Við vinnum í því að vera til en það er heldur betur vinna að vera í hjónabandi,“ segir Albert Eiríksson, en hann og eiginmaður hans, Bergþór Pálsson, fara ýmsar leiðir til þess að rækta sambandið. Albert var í opnuviðtali Austurgluggans fyrir skemmstu.


„Við finnum okkur alltaf leiðir, ekki alltaf þær sömu og hafa þær verið breytilegar gegnum tíðina. Í vetur höfum við til dæmis farið á kaffihús tvisvar sinnum í mánuði og haldið vinnufundi. Við erum báðir með tölvurnar okkar og eitt sameiginlegt skjal. Þarna tölum við um það sem þarf að gera og er fram undan. Stundum þarf að hringja í rafvirkja eða smið, eða eitthvað annað. Ég mæli með þessu fyrir alla, það gott að fara út af heimilinu og halda vinnufund því það leysast mörg mál á honum sjálfum og eftir hann en oft er þetta bara spurning um tveggja mínútna símtöl sem hægt er að klára á staðnum. Stundum er lítið sem liggur fyrir og þá bara spjöllum við meira.“

Ferðast meira og njóta lífsins
Albert og Bergþór hafa ferðast víða og segir Albert flestar ferðir verða afar matartengdar. „Bergþór er ekki minni matmaður en ég og við höfum aðeins farið sem leiðsögumenn erlendis, í matartengdar ferðir. Einnig förum við mikið út að borða hérna heima og ég skrifa þá gjarnan um þá staði.“

Albert og Bergþór hafa ekki sett sér spennandi langtímamarkmið. „Við ætlum okkur að heimsækja allar heimsálfur en við eigum rúmlega helminginn eftir. Okkur langar að ferðast meira og njóta lífsins eins mikið og hægt er. Þegar maður eldist fjölgar alltaf jarðarförunum og það er góð áminning fyrir mann til að njóta þess að vera til en það gerir hver og einn á sinn hátt. Ekki hugsa með trega til fortíðarinnar, heldur erum við hér og nú og höfum mikið um það að segja hvernig okkur líður, auk þess að hafa ákveðna stjórn á framtíðinni. Að njóta, það myndi ég segja að væri stóra orðið.“

Ljósmynd: Helena Stefánsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar