Hallormsstaðaskógur heitur um helgina
Útlit er fyrir gott veður hjá þeim fjölmörgu sem stefna á útilegu í Hallormsstaðaskógi um helgina. Búið er að opna öll tjaldsvæði í skóginum en mikið er lagt upp úr því að farið sé að reglum landlæknis um fjarlægðir milli tjalda og fólks.Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður hjá Skógræktinni á Hallormsstað, segir að farið hafi að bera á umferð strax í gær og að útlit sé fyrir að þó nokkur fjöldi hyggist dvelja í skóginum yfir helgina enda sé veðurspáin góð miðað við árstíma og frídagur á mánudag.
Rólegt fram að þessu
„Þetta er fyrsta helgin sem við sjáum einhverja traffík að ráði. Það er ágæt spá, ekki eins góð og hún var, en fín spá miðað við maí. Fólk er á ferðinni bæði með tjöld og alls lags ferðavagna,“ segir Bergrún en Skógræktin hefur hagað opnun tjaldsvæðanna með líkum hætti og verið hefur undandarin ár, þó svo að Covid-19 faraldurinn hafi óneitanlega sett strik í reikninginn.
„Við opnuðum fyrsta svæðið 5. maí líkt og gert hefur verið síðustu 3-4 ár en maí var mun rólegri en verið hefur. Það vantar auðvitað þetta erlenda ferðafólk sem verið hefur á ferðinni á þessum tíma. Við sjáum samt að það eru útlendingar að ferðast, en það er þá fólk sem hefur verið hér á landi að vinna og er nú að nýta tímann til að skoða sig um.“
Svæðunum skipt upp
Skógræktin rekur tvö megintjaldsvæði í skóginum, í Höfðavík og Atlavík, og þeim hefur nú verið skipt í tvennt hvoru um sig. Margir kannast eflaust við Atlavík af landsfrægum útihátíðum sem þar voru lengi haldnar, en stemmingin þar er mun rólegri í seinni tíð. Á tjaldsvæðinu í Höfðavík hefur síðan verið lögð áhersla á að byggja upp eilítið meiri þjónustu, með rafmagnstengingum fyrir ferðavagna og leiksvæðum fyrir börn. Bergrún vill ítreka við fólk sem kemur til dvalar á tjaldsvæðunum að farið sé að settum reglum Landlæknisembættisins.
„Það þarf bara að passa að fara eftir gildandi reglum. Fjórir metrar á milli tjalda og tveir metrar á milli fólks, eða að fólk eigi þess kost að viðhalda tveggja metra reglunni kjósi það svo. Þessar reglur gilda þó ekki um hópa sem koma saman og vilja tjalda saman.“