Hannaði matardisk fyrir hátíðarkvöldverð Klúbb matreiðslumanna

Grafíski hönnuðurinn, myndlistarmaðurinn og Héraðsbúinn Heiðdís Halla Bjarnadóttir hannaði nýverið matardisk sérstaklega fyrir hátíðarkvöldverð Klúbbs matreiðslumeistara. Þetta er árlegur viðburður sem klúbburinn stendur fyrir og er eitt aðalfjármögnunarverkefnið fyrir kokkalandsliðið.

 

Heiðdís er nýflutt heim til Egilstaða eftir 22 ára fjarveru. Hún hefur starfað sem grafískur hönnuður um nokkurra ára skeið og rekur eigið fyrirtæki á því sviði sem heitir Duodot. Þar hefur hún sinnt ýmsum fjölbreyttum verkefnum fyrir fyrirtæki og einstaklinga.

 

Konur í framlínunni

„Það var meistarakokkurinn Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, yfirkokkur og stjórnandi hátíðarkvöldverðarins sem hafði samband við mig og fékk mig í þetta verkefni,“ segir Heiðdís

Í ár voru konur í framlínunni á þessum árlega viðburði. „Allir kokkarnir sem hönnuðu aðalréttina voru konur. Auðvitað voru karlkokkar og -þjónar og -skemmtikraftar sem tóku líka þátt í kvöldinu en þetta var samt „þemað í ár.“

Heiðdís segir að þetta hafi verið mjög skemmtilegt verkefni að vinna að, ekki síst fyrir aðhenni var síðan boðið í veisluna. „Ég tók systur mína með mér. Við sátum á borði með Elizu Reid og fleirum, voða fínt. Svo þurfti ég að halda smá ræðu, sem gekk bara vel.“ 

Skammtar innblástur

Hún segir að hönnunarferlið hafi verið skemmtilegt. Hún fékk sniðmát af disknum sent frá postulínsframleiðandanum Figgjo í Noregi ásamt þeim litum sem í boði var að vinna með.

„Þegar ég var búin að ákveða litina, sem tók alveg nokkra daga, fór ég að hugsa um heildarhugmyndina fyrir diskinn. Ég vann með grunnformin eins og ég geri svo oft. Mér finnst oft fegurðin í abstrakt nálgun vera svo mikil.

En það er alveg þannig að litir og form hafa áhrif á okkur líkt og tónlist og lykt og ég fæ mikið út úr því að leggja tilfinningu í abstrakt verk og sjá hver útkoman verður.“

Þegar hún settist niður og fór að hugsa um verkefnið segist hún hafa hugsað um hvernig okkur er jafnan skammtað svo margt í lífinu. 

„Ég hugsaði um skammta. Öllum er til dæmis skammtaður tími, staða. Hvert og eitt okkar fær líka sinn skerf af tíma, gleði, sorg og meira að segja peningum. Oft á tíðum höfum við sáralítið um það að segja hvað við fáum. Svo er líka oft verið að ráðleggja okkur ákveðnar skammtastærðir.“

Heiðdís segir að oftast þurfa hönnuðir  að vinna eftir þekktum, fyrirfram ákveðnum og stöðluðum aðferðum.

„Það getur verið skemmtilegt í tiltekinn tíma. En það er mikilvægt fyrir hönnuðinn að fá frelsi inn á milli til að gera tilraunir og skapa eitthvað nýtt. Sama gildir um kokka og svo margar aðrar starfsstéttir.

Stundum bara einhver tilbrigði við það sem er þekkt eða jafnvel eitthvað alveg nýtt. Og það er þá sem við blómstrum,“ segir Heiðdís að lokum.

Til gamans má geta að þessa stundina er kokkalandslið ísland á Olympíuleikunum og hefur liðið unnið til tvennra gullverðlauna. 

 

Matardiskurinn. Hönnunin minnir á fyrirfram ákveðnar skammtastærðir. Mynd: BKG

Heiðdís Halla Bjarnadóttir hönnuður á bakvið hönnun sína. Mynd: Linda Ólafsdóttir. 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar