Hannaði smáforrit til að veita upplýsingar um austfirska verslun og þjónustu

Smáforritið SparAustur, sem veitir notendum vildarkjör hjá veitingastöðum, verslunum og þjónustuaðilum á Austurlandi, fór formlega í loftið í vikunni. Hugmyndasmiður forritsins segist vilja efla sýnileika fyrirtækja á Austurlandi.

„Pælingin var að styrkja Austurland, þannig varð appið til,“ segir Auðun Bragi Kjartansson, 27 ára Héraðsbúi og höfundurinn að baki SparAustur.

Forritið er frítt bæði fyrir notendur og fyrirtæki sem eru með í því, enn sem komið er. Notendur sækja forritið í síma sína. Í því koma fram upplýsingar um hvaða fyrirtæki bjóða notendum vildarkjör og hver þau eru. Notendur sýna síðan forritið þegar þeir eru að greiða fyrir viðskipti, eða slá inn kóða séu þeir að panta í gegnum vefverslanir.

„Ég vildi hafa þetta frítt, að minnsta kosti í upphafi. Það hefði getað dregið úr mönnum kjarkinn að prófa ef þeir þyrftu að kaupa sig inn. Það er líklegt að síðar meir þurfi fyrirtæki að borga fyrir að vera með, en það yrði aðeins brot af því sem sambærileg markaðssetning kostar.

Fyrirtækin hafa verið jákvæð og opin. Ég hef reynt að hafa samband við þau flest hér eystra, það ætti enginn að hafa ekki fengið símhringingu eða tölvupóst frá mér. Sum hafa spurt hvað hangi á spýtunni, hvers vegna þetta sé frítt, en þegar þau skilja hugsunina þá slá þau til."

Hvatning til viðskipta í heimabyggð

Þegar eru komin fyrirtæki frá Egilsstöðum, Seyðisfirði, Borgarfirði, Norðfirði og Eskifirði inn í samstarfið, sem einnig má finna upplýsingar um á www.spara.is. Auðun Bragi vonast til að það verði til að hvetja fólk til að fara á milli staða á svæðinu. „Ég vil að fyrirtæki frá Stöðvarfirði séu með alveg eins og fyrirtæki hér á Egilstöðum. Ef þú sérð tilboð frá Stöðvarfirði hvetur það þig kannski til að fara þangað.“

Tilkoma forritsins á líka vel heima í því andrúmsloftið sem nú ríkir þar sem íbúar eru hvattir til að styðja við fyrirtæki í sinni heimabyggð með að skipta við þau. „Það er pælingin. Rekstraraðilar tala um að vetrarmánuðirnir, þar sem ferðamennirnir eru færri, séu erfiðir en tilboð sem þessi ýta mögulega á fólk að fara af stað.“

En það er ekki bara að finna tilboð í forritinu. Þar er einnig að finna upplýsingar matseðla veitingastaða, heimilisföng og símanúmer þannig að hægt er að hafa samband beint við staðina. „Maður þekkir að langa til að fara út að borða en eyða mörgum mínútum í að leita að matseðlum á Facebook. Svo er þægilegt að geta hringt í gegnum forritið til að panta.“

Þessir eiginleikar ættu líka að geta komið gestkomendum á svæðinu til góða. „Nú er verið að hvetja fólk til að ferðast innanlands. Forritið ætti að nýtast vel fólki sem ekki þekkir til á svæðinu.“

App Store tímafrekast

Hugur Auðuns stefnir lengra en bara til Austurlands. Hann segir að þegar hafi fyrirtæki á Norðurlandi sýnt áhuga á að vera með. „Það er ekkert svona forrit á landsbyggðinni en þau eru nokkur í Reykjavík. Ég vildi koma landsbyggðinni inn í þetta.“

Hann hefur unnið að hugmyndinni síðan um áramót. „Hugmyndavinnan hófst í janúar. Síðan hefur hugmyndin breyst mikið. Það sem tók langmestan tíma var að fá forritið samþykkt af Apple inn í App Store. Þeir voru samt mjög hjálpsamir en það var mikil skriffinnska og margar reglur sem ég hafði ekki hugmynd um þegar ég fór af stað. Ég hef lært mikið og nú veit ég betur hvað þarf að gera ef ég vil gera fleiri smáforrit.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.