![](/images/stories/news/2016/Dans_í_Sláturhúsinu.png)
„Hans verk eru frábrugðin öðrum“
„Það er gaman að geta kynnt ólíka listamenn fyrir austfirskum áhorfendum,“ segir Unnar Geir Unnarsson, framkvæmdastjóri Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs, en kvikmyndaða dansverkið Albertina verður sýnt í Frystiklefanum seinnipartinn í dag.
Serbneski dansarinn- og danshöfundurinn Milos Sofrenovic er búsettur í Austurríki en starfar sem danslistamaður og kennir um allan heim. Hann hefur dvalið í Kaffistofunni, listamannaíbúð Sláturhússins, að undanförnu. Milos hefur áður verið í Kaffistofunni, en þá kenndi hann bæði á Egilsstöðum og við Lunga skólann á Seyðisfirði, auk þess að sýna dansverk í Frystiklefanum.
Að þessu sinni er koma Milos samstarf Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs og Lunga skólans, en hann kenndi námskeið við skólann nú nýverið. Auk þess að vinna að nýjum verkum og sýna kvikmyndina Albertina, heldur Milos einnig námskeið fyrir nemendur Menntaskólans á Egilsstöðum
„Við höfum fengið til okkar fjölbreytan hóp danslistamanna í kaffistofuna. Milos hefur þá sérstöðu að vera fullorðinn dansari, en hann er komin yfir fertugt sem þykir hár aldur í dansheiminum en hans verk eru því frábrugðin öðrum verkum en við höfum verið með hingað til,“ segir Unnar Geir og bætir því við að mjög vel hafi verið mætt á dansverkin í Sláturhúsinu hingað til.
Albertina verður sýnd í frystiklefanum klukkan 18:00 í dag.