Diskóhlaðan opnar á Karlsstöðum: Engin boðskort en allir velkomnir
Um helgina opnar Havarí nýtt veitinga- og viðburðarými í hlöðunni á Karlstöðum í Berufirði. Þar er ætlunin er að blanda saman myndlist, tónlist og grænmetisréttum.
Hjónin Svavar Pétur Eysteinsson og Berglind Häsler, bændur á Karlsstöðum í Berufirði fara ekki troðnar slóðir í sínum búskap. Þau starfrækja matvælaframleiðslu, gistiheimili og menningarstarfsemi undir merki Havarí og um helgina bætist við veitingastaður.
Framkvæmdir hófust í hlöðunni á Karlstöðum í apríl en á morgun, laugardaginn 11. júní, verður haldið opnunarpartý. Partýið hefst klukkan 7 og segir Svavar Pétur að engin boðskort hafi verið send út en allir séu velkomnir.
Veitingastaðurinn opnar svo formlega eftir helgi, eða um leið og öll leyfi berast með pósti. Á veitingastaðnum verður boðið uppá grænmetis skyndibita og verður ekkert kjöt á matseðli. Havarí hefur einmitt um nokkurt skeið framleitt og selt grænmetispylsur undir vöruheitinu Bulsur og Sveitasnakk þurrkuðum úr rófum.
Veitingastaðurinn verður opinn í sumar og fram á haust en óákveðið er hvernig opnun verður háttað í vetur. Þó er gert ráð fyrir að haldnir verði tónleikar og aðrir viðburðir í rýminu allan ársins hring.