Heiðraður fyrir söng á hjúkrunar- og dvalarheimilum

Broddi Bjarnason, söngvari og pípulagningameistari, var heiðraður af Rótarýklúbbi Héraðsbúa fyrir þjónustu sinni við samfélagið á Fljótsdalshéraði. Broddi hefur undanfarin 15 ár skemmt eldri borgurum með söng.

Frá árinu 2000 hefur Rótarýklúbbur Héraðsbúa haft þann sið við hátíðahöld á Héraði á 17. júní að veita einstaklingi, félagi eða fyrirtæki viðurkenningu fyrir framúrskarandi afrek, þjónustu eða frumkvæði í einhverri mynd á starfssvæði klúbbsins.

Að þessu sinni var hátíðahöldum á Héraði aflýst en viðurkenningin þess í stað afhent í messu á þjóðhátíðardaginn í Egilsstaðakirkju. Hana hlaut Brodda B. Bjarnason fyrir menningarstarf á sviði tónlistar og samfélagsþjónustu við eldri borgara og fatlaða. Hann hefur undanfarin 15 ár sungið vikulega fyrir og með fólki sem dvelst á hjúkrunar- og dvalarheimilum til að brjóta upp daglegt líf þess og gera það skemmtilegra.

Heimsóknabann vegna Covid-19 faraldursins setti strik í þessa hefð í vor. Broddi fann sér hins vegar leið og hafði frumkvæði að því, ásamt konu sinni, að fá til liðs við sig nokkra aðila ásamt kvikmyndatökufólki til að taka upp myndbönd með söng til þess að dreifa á dvalarheimilin. Þannig féllu söngstundirnar ekki niður á meðan heimsóknabanninu stóð.

Broddi fagnaði sjötugsafmæli sínu í byrjun þessa árs en hann hefur komið víða við í samfélaginu á Fljótsdalshéraði og Austurlandi. Hann er menntaður pípulagningameistari og hefur lengst af starfað sem slíkur sat einnig um tíma í bæjarstjórn, var forseti bæjarstjórnar auk þess sem hann var formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Þá er Broddi er einn af stofnendum karlakórsins Drífanda og hefur verið formaður hans frá upphafi.

Broddi með viðurkenninguna ásamt Ásdísi Helgu Bjarnadóttur, formanni Rótarýklúbbs Héraðsbúa. Mynd: Rótarýklúbbur Héraðsbúa.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar