Heimsganga í þágu friðar
Heimsgangan er aðgerð sem fer fram í 90 löndum frá 2. október 2009 til 2. janúar 2010 og hefur Ísland nú bæst í þann hóp. Markmið Heimsgöngunnar er að skapa vitundarvakningu sem hafnar öllu ofbeldi hvernig sem það birtist, svipaða þeim breytingum sem orðið hafa á viðhorfum til umhverfismála á síðustu áratugum.
Takmark Heimsgöngunnar er að fordæma hið stórhættulega ástand í heiminum, sem færir okkur nær og nær kjarnorkustríði og skapa í staðinn kringumstæður sem leitt geta til friðar og tilvistar án ofbeldis.
Gangan sjálf hefst á fæðingardegi Gandhis, 2. október 2009 á Nýja Sjálandi, stendur yfir í 3 mánuði og endar við rætur Aconcagua, hæsta fjalls Suður-Ameriku 2. jan 2010.
,,Á Íslandi vonumst við til að i lok ársins hafi flest samtök og opinberir aðilar tekið virkan þátt í þessari aðgerð. Að flestir Íslendingar verði meðvitaðir um hana og vonandi farnir að leggja sitt af mörkum til að við getum loksins farið að búa í heimi án ofbeldis,“ segir Helga R. Óskarsdóttir, sem samhæfir Heimsgönguna á Íslandi.
Í maí er stefnt að fjölþjóðlegri göngu frá Hlemmi að Ingólfstorgi í Reykjavík.
Meðal stuðningsaðila Heimsgöngunnar hér á landi eru Reykjanesbær, Hafnarfjörður, Hjallastefnan, KSÍ, SAMFÉS, Skáksamband Íslands og Samband íslenskra framhaldsskólanema.