Heldur fyrstu tónleikana með að hita upp fyrir Ásgeir Trausta
Norðfirðingurinn Kári Kresfelder Haraldsson heldur sína fyrstu tónleika í vikunni þegar hann hitar upp fyrir Ásgeir Trausta á tónleikum hans í Egilsbúð. Kári fylgir þar með eftir sólóplötunni „Words“ sem kom út fyrir síðustu jól.„Ég er óneitanlega stressaður. Þetta verður í fyrsta sinn sem ég syng opinberlega uppi á sviði en ég er búinn að undirbúa mig vel og er því fyrst og fremst spenntur.
Jonni (Jóhann Ágúst Jóhannsson) hjá Menningarstofu Fjarðabyggðar hringdi í mig og bauð mér þetta tækifæri. Ég sagði já – það var ekki flóknara,“ segir Kári Kresfelder Haraldsson, 22ja ára gamall Norðfirðingur sem í nóvember sendi frá sér sólóplötu.
Hann hefur til þessa mest sungið í bílnum sínum, meðal annars við gerð plötunnar. „Ég fór stundum í bíltúr inn í sveit til að taka upp söng. Veggirnir heima eru þunnir og því hljóðbært.“
Hann vann plötuna mest sjálfur, lék á nær öll hljóðfærin en hefur sótt sér liðsstyrk fyrir tónleikana. „Ég er kominn með trommara, bassaleikara og annan gítarleikara til að hjálpa mér. Við flytjum þau lög sem eru í einföldustu útsetningunum,“ segir Kári.
Kári sækir efnivið sinn víða og því er ekki einfalt að tengja tónlistina hans við ákveðnar stefnur. „Ég sest niður og tek upp það sem mér dettur í hug á staðnum en fylgi engri ákveðinni stefnu,“ segir Kári sem að undanförnu hefur spilað með Chögma, sem varð í þriðja sæti Músíktilrauna. Hann vinnur þó áfram að eigin efni og sendi nýlega frá sér smáskífu.
Ásgeir Trausti er á hringferð um landið og heldur tvenna tónleika af því tilefni á Austurlandi. Hinir fyrri verða í Seyðisfjarðarkirkju í kvöld en þeir seinni í Egilsbúð á fimmtudag. Báðir tónleikarnir hefjast klukkan níu. Tónleikarnir í Neskaupstað eru haldnir undir merkjum Tónaflugs sem er röð tónlistarviðburða í bænum.