Heldur upp á 67 ára afmælið með síðasta Glettuþættinum

Gísli Sigurgeirsson stýrir í kvöld sínum síðasta þætti af Glettum að austan sem verið hafa í loftinu á N4 í á fjórða ár. Hann segir að gaman hafi verið að endurnýja kynnin við gamla kunningja við gerð þáttanna.


„Mér líður alltaf vel. Þetta eru orðin þrjú og hálft ár og það er orðið ágætt að breyta til,“ segir Gísli aðspurður um hvað honum finnist um tímamótin.

Þættirnir hófu göngu sína í sumarbyrjun 2012 og eru síðan orðnir um 170 talsins. Klukkan 19:30 verður byrjað að senda út klukkutímalangan þátt með broti af því besta frá þessum tíma og verður hann endursýndur stöðugt í sólarhring.

Gísli fagnar í dag 67 ára afmæli sínu og telur rétt að taka að sér ný verkefni. „Það er langt að sækja efnið og stórt svæði undir en þetta hefur verið mjög skemmtilegur tími. Það hefur verið gaman að endurnýja kynnin við Austurland enda hjálpað mikið að þekkja til. Ég hef bæði endurnýjað kynni við gamla kunningja en líka kynnst nýju fólki.“

Þátturinn var tilnefndur til Edduverðlaunanna árið 2013 og Gísli kveðst ánægður með viðtökur áhorfenda.

„Það hefur verið gaman að finna hve þakklátt efni þetta hefur verið og ekki síður í þéttbýlinu á Höfuðborgarsvæðinu. Fullt af fólki þaðan hefur haft samband því það hefur uppgötvað perlur fyrir austan sem það vissi ekki að væru til. Það var líka tilgangur með þáttunum í upphafi að opna Austurland meira. Mér fannst svæðinu ekki hafa verið nógu vel sinnt af fjölmiðlum landsins.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar