Helgin á Austurlandi – Máni syngur Bubba á Tehúsinu

Með hækkandi sól og meiri slaka í regluverki sóttvarna fer aftur að færast líf í viðburðahald á Austurlandi líkt og annarsstaðar. Nú í kvöld ætlar Hafþór Máni Valsson, ásamt Friðriki Jónssyni gítarleikara, að spila og syngja nokkur af ástsælustu lögum Bubba Morthens á Tehúsinu á Egilsstöðum. Einnig er boðið upp á karókí, kvikmyndasýningu og skipulagða fuglaskoðun.

Máni og Friðrik ætla að ríða á vaðið með tónleika nú þegar rofar til í veirufaraldrinum. Aðspurður hvort hann sé mikill „Bubba-maður“ segir Máni það alveg geta staðist. „Ætli ég flokkist ekki undir að vera „gamla-Bubba-maður“ þó að hann eigi vissulega líka góð lög í seinni tíð. En ég hef hlustað á hann frá unga aldri.“

Það verða því líklega gömlu klassísku lögin sem fá einkum að hljóma hjá þeim félögum í kvöld, eða hvað?

„Já, við erum að vinna eingöngu með eldra efnið sem allir kunna, elska eða elska að hata. Og það má vissulega syngja með því að flestir kunna þessi lög, enda löngu orðin partur af þjóðarsál Íslendinga.“

Fjörið hefst klukkan 20:30 og opið verður til 23:00 en vegna sóttvarna er aðeins rúm fyrir 48 gesti. Máni óttast hins vegar ekki að fólk sé búið að gleyma hvernig á að mæta á viðburði sem þessa.

„Nei, ég vona að fólk muni alla vega hugmyndina um hvernig er að fara á tónleika. Þetta snýst um að hlusta og njóta. Það hljóta einhverjir að vera orðnir óþreyjufullir að komast út. Alla vega hlakka ég til að hitta fólk og hafa gaman.“

Bubbi er ekki það eina sem mun hljóma á Tehúsinu um helgina því á laugardagskvöld er boðið upp á karókí frá kl. 20:00 og til 22:00.

 

Sódóma Eskifjörður

Menningarstofa Fjarðabyggðar og Kvikmyndaklúbbur Austurlands hafa í nokkur skipti staðið fyrir bílabíói á undanförnum vikum og nú er það hin sígilda gamanmynd Sódóma Reykjavík sem sýnd verður á Eskifirði í kvöld kl. 23:00.

Sýningin er gjaldfrjáls svo allir geti notið en hægt verður að láta gott af sér leiða og styðja við starf Rauða krossins á Eskifirði með frjálsum framlögum

Áhersla er lögð á að í hverjum bíl verði eingöngu þeir sem nú þegar deila heimili og eiga þar af leiðandi hvort sem er í samskiptum sín á milli sem ekki krefst 2 metra bils. Þá er á það bent að fólki í sóttkví og einangrun er óheimilt að mæta og fara þannig á svig við reglur um sóttkví og einangrun vegna COVID-19.

 

Fuglaskoðun á Fjörðum

Náttúrustofa Austurlands gengst á laugardag fyrir sinni árlegu fuglaskoðun og fuglatalningu á leirum Norðfjarðar og Reyðarfjarðar. Sérfræðingar Náttúrustofu stjórna talningu og koma með „fuglaskóp“. Allir eru velkomnir en minnt er á að fylgja verður reglum vegna Covid-19 veirunnar. Þátttakendur þurfa að koma með sjónauka, ef þeir geta.

Mæting er kl. 9:00 við Leiruna í Norðfirði og kl. 10:00 við Andapollinn í Reyðarfirði.

F.v. Friðrik Jónsson og Hafþór Máni Valsson Mynd: Aðsend.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar