Helgin á Austurlandi: „Þeir völdu Havarí sem sinn fyrsta viðkomustað“

„Þeir hafa verið að æfa upp nýtt prógramm og völdu Havarí sem sinn fyrsta viðkomustað,“ segir Berglind Häsler, tónleikahaldari og bóndi á Karlsstöðum í Berufirði, en þeir Valdimar Guðmundsson, Snorri Helgason og Teitur Magnússon halda tónleika í hlöðunni á laugardagskvöld.



„Þeir verða allir saman á sviðinu allt kvöldið þannig að þetta verður mikið stuð. Auk þess finnum við fyrir mikilli stemmningu í kringum okkur en það gerist alltaf eitthvað þegar tónleikar eru haldnir svona út í buskanum, það verða einhverjir óútskýrðir töfrar,“ segir Berglind.

Berglind er ánægð með hve vel hefur tekist til með að koma Havarí á koppinn sem tónleikastað. „Það er algerlega frábært, bara alveg það sem við lögðum upp með. Það er gaman að geta boðið upp á góðan tónleikastað þar sem vel er hugsað um listamennina, en við erum með allt til alls. Þetta er ansi langt komið hjá okkur og baksviðsherbergið er á teikniborðinu. Það sem mestu máli skipti þó að allir eru með okkur í liði og það er svo skemmtilegt.“

Gestir geta gert vel við sig á laugardaginn því að þau Berglind og Svavar ætla að vera með hlaðborð fyrir tónleika. „Matstofan opnar klukkan sex og við berum fram mat til hálf níu og tónleikarnir hefjast klukkan níu. Hótel Bláfell á Breiðdalsvík og Hótel Framtíð á Djúpavogi eru með tilboð á gistingu og rútuferðir verða frá Djúpavogi. Því er engin ástæða til annars en að fá sér næturpössun og taka þetta alla leið um helgina,“ segir Berglind.

Aðeins eru 100 miðar í boði og forsala fer fram á Tix en annars verða miðar seldir á staðnum.


Tónleikar í Tónleikamiðstöð Austurlands

Lára Sóley Jóhannsdóttir og Hjalti Jónsson halda tónleika í Tónleikamiðstöð Austurlands á föstudagskvöldið þar sem klassískar perlur með fiðlusmellum og sönglögum munu hljóma. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00.


Kvikmyndaveislan RIFF í Sláturhúsinu um helgina

Kvikmyndahátíðin Riff verður í Sláturhúsinu alla helgina.

Á föstudaginn klukkan 20:00 verður myndin WAWES frá Póllandi, Ania and Kasia eru lífsglaðar 17 ára stelpur. Þær þurfa að læra að sjá fyrir sér þar sem foreldrar þeirra hafa ekki lært að sjá fyrir sér sjálfir.

Stelpurnar eru í starfsnámi á lítilli hárgreiðslustofu. Þær verða nánar og bindast vinaböndum. Dag einn fer líf Aniu úr skorðum þegar móðir hennar, sem hún hefur ekki séð lengi, birtist.

Á laugardaginn klukkan 15:00 verða sýndar fimm stuttar heimildarmyndir sem fjalla um ólíkar hliðar íslensks mannlífs.

Klukkan 18:00 á laugardaginn verður myndin Ransacked (Ísland) sýnd, en í október 2008 varð bankahrun á Íslandi og „Ransacked’ segir frá því hvernig auður, vogunarsjóðir og hagkerfi hafa áhrif á líf venjulegs fólks eins og Þorsteins Theódórssonar. Átta árum síðar hafa bankarnir selt burt hagnað sinn og hafaaftur grætt milljarða. Hver vinnur og hver tapar?

Á sunnudaginn klukkan 16:00 verður myndin BOBBY SANDS: 66 DAYS. (Írland/Bretland), en hún fjallar um hungurverkfall írska lýðveldissinnans Bobby Sands árið 1981 sem vakti heimsathygli á málstað hans. Hin tilfinningaþrungnu, friðsömu mótmæli urðu að mikilvægum hluta írskrar sögu á 20. öldinni. Dauði hans eftir 66 daga olli straumhvörfum í sambandi Bretlands og Írlands og augu heimsins beindust að deilunum í Norður Írlandi.

Hér má nánar fylgjast með viðburðinum.



Listin að halda fyrirlestur

Listkennsludeild Listaháskóla Íslands/Opni Listaháskólinn og Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs standa fyrir námskeiði fyrir kennara og aðra áhugasama á Austurlandi um helgina. Kennari er Þórey Sigþórsdóttir.

Áhersla er lögð á að þróa persónulegan frásagnarstíl hvers þátttakanda. Þátttakendur fá þjálfun í framsögn í gegnum fyrirlestra, verklegar æfingar, öndun og raddæfingar. Námskeiðið er sjálfstætt framhald af þeim tæknilega grunni sem lagður var í áfanganum Rödd, spuni tjáning. Skráningar fara fram hér.



BEAUTY AND THE BLUES

Blússveitin BEAUTY AND THE BLUES mun spila tvenna tónleika á Austurlandi um helgina frítt er inn á þá báða.

Sveitina skipa Jens Einarsson sem syngur, spilar á rafgítar, slidegítar. Friðrik Jónsson á rafgítar, Bergur Már Hallgrímsson á bassa og Oddur Finnbogi Sigurbjörnsson á trommur. Sveitin spilar blús eins og hann gerist bestur, allt frá ljúfum moll blúsum upp í fjörugt og kraftmikið blúsrokk.. Á prógramminu eru þekktir standardar eftir Robert Johnson, Muddy Waters, Eric Clapton, Stevie Ray Vaughan, Alvin Lee, Johnny Winter, Peter Green og fleiri.

Föstudagur: Í Stúkunni á Neskaupsstað, klukkan 21:00.

Laugardaginn: Kaffi Lára á Seyðisfirði, klukkan 22.00

Nánar má fylgjast með viðburðinum hér.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar