Helgin: Dillivænt danspopp á Djúpavogi

Helgin er með rólegra móti á Austurlandi, enda talsvert um að vera í tengslum við þjóðhátíðardaginn í vikunni. Fjölmargar listsýningar sem opnuðu þá eru opnar um helgina og þá er boðið upp á sólstöðugöngu, tónleika á Eskifirði og ball á Djúpavogi.

Það verða Tónleikafélag Djúpavogs og hljómsvetin 6pence sem munu halda uppi stemmingunni á veitingastaðnum Við voginn á Djúpavogi. Hljómsveitin 6pence er ný af nálinni og samanstendur af þremur Djúpavogsbúum, Þorkeli Guðmundssyni hljómborðsleikara, Ásgeiri Ævari Ásgeirssyni bassaleikara og Jóni Davíð Péturssyni trommara, Fljótsdælingnum Víði Þórarinssyni sem þenur raddbönd og Hafnfirðingnum Kristni Bjarna Valdimarssyni sem plokkar gítarinn. Að sögn Þorkels er búið að æfa vel í aðdragandanum.

„Við vorum búnir að æfa nokkuð stíft í aðdraganda Covid og ætluðum að taka gigg, en svo fór allt í frost. Við erum því orðnir mjög gigg-þyrstir.“ Covid hefur enn sín áhrif en leikar hefjast annað kvöld kl. 20:30 og stendur til 23. Þorkell segir tónlistina dansvæna. „Við spilum helst lög með tónlistarmönnum sem eru eldri en við. Þetta er mikið svona dillivænt 80´s og 90´s popp. Duran Duran og Police, svo eitthvað sé nefnt.“ Þeir félagar lofa miklu stuði og ætla sér meiri landvinninga á næstunni. „Ætli við ráðum okkur ekki umboðsmann og hlöðum í nokkur böll,“ segir Þorkell að lokum, en að eigin sögn sat hann í 40° hita á Djúpavogi, svo það verður að taka öllu sem hann segir með ákveðnum fyrirvara.

Sólstöðuganga
Í köld, 19. júní, stendur Ferðafélag Fljótsdalshéraðs að venju fyrir sólstöðugöngu frá Unaósi út í Stapavík. Mæting er við hús Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, Tjarnarási 8, Egilsstöðum. Lagt verður af stað þaðan klukkan 20:00 og keyrt að Unaósi. Verð 500 krónur en frítt fyrir 14 ára og yngri. Stefán Kristmannsson leiðir gönguna.

Á leiðinni er gengið fram hjá Eiðaveri en þaðan lét Margrét ríka á Eiðum róa til fiskjar um miðja 15. öld. Þar eru líka fornar beitarhúsatættur. Í Stapavíkinni var vörum skipað upp alveg fram á fjórða áratug síðustu aldar. Gangan er um 10 km báðar leiðir en engin hækkun og gengið á góðum stíg alla leið.

Tónleikar á Eskifirði
Á laugardagskvöld kl. 20 stendur Tónlistarmiðstöð Austurlands fyrir tónleikum í Eskifjarðarkirkju undir yfirskriftinni „Frá norrænum slóðum“ Á efnisskránni eru sönglög eftir norræn og íslensk tónskáld á borð við Edvard Grieg, Jean Sibelius, Carl Nielsen, Wilhelm Stenhammar, Agathe Backer Grøndahl, Jón Laxdal, Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Sigfús Einarsson, Árna Þorsteinsson, Sigvalda Kaldalóns, Þórarin Guðmundsson, Pál Ísólfsson, Jón Þórarinsson, Jórunni Viðar, Tryggva M. Baldvinsson og Elínu Gunnlaugsdóttur.

Flytjendur eru þau Þóra Einarsdóttir sópran og píanóleikarinn Peter Máté, sem bæði eru prófessorar við Listaháskóla Íslands. Þau eiga langan ferill að baki og hafa komið fram æ oftar saman, síðast á Ítalíu 2017 og í Salnum í Kópavogi 2018. Miðasala er við innganginn og miðaverð 2.000 kr. en eldri borgarar fá frítt inn á viðburðinn

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar