Helgin: Enn að læra nýja hluti eftir 40 ár í tónlistinni
Gréta Sigurjónsdóttir og Erla Ragnarsdóttir, löngum kenndar við hljómsveitina Dúkkulísurnar, kynna nýja sex laga plötu sína með hlustunarpartýi á Tehúsinu á Egilsstöðum í dag. Fleiri tónleikar og viðburðir verða á Austurlandi um helgina.Sex laga stuttskífa Erlu & Grétu, „Lífið er ljóðið okkar“ kom formlega út um síðustu helgi. Þær hafa unnið plötuna í samvinnu við Guðmund Óskar Guðmundsson, sem oft er kenndur við GÓSS og hófst það samstarf með upptökum þeirra á lagi eftir Jóhann Helgason árið 2019. Það er eitt tveggja laga plötunnar eftir aðra höfunda. Hitt er eftir Lisu Ekdahl en Gréta samdi nýjan íslenskan texta við það.
„Erla syngur lögin en Guðmundur Óskar fann með okkur hljóðfæraleikara. Það er búið að vera virkilega gaman að vinna þessa plötu með flottu fólki og við höfum lært mikið á því,“ segir Gréta.
Af þeim sem koma fram með þeim má nefna söngvarann Magna Ásgeirsson frá Borgarfirði og strengjasveit frá Búdapest sem Hjörtur Yngvi Jóhannsson stýrði.
Þær segja plötuna fyrst og fremst fjalla um mannleg samskipti sem skoðuð séu út frá gangi lífsins og mikilvægi þess að vera einlægur í nánum samböndum. Eins sé horft til vináttu og gildi hennar í dag. Þá bregður ástinni fyrir í margbreytileika og hvernig hún þróast og þroskast eða jafnvel hverfur í lífsins ólgusjó. Hlustunarpartýið hefst á Tehúsinu á Egilsstöðum klukkan 17:00 í dag.
Tveir viðburðir í afmæli Egilsstaðakirkju
Hátíðin haustroði verður haldin á Seyðisfirði um helgina. Hluti af henni er opnun nýrrar sýningar Arnar Alexanders Ámundasonar í Skaftfelli á morgun. Á henni eru ný verk sem hann hefur unnið sérstaklega inn í sýningarrýmið og dyljast í því.
Á morgun frá 10-14 verður dagskrá í Vallanesi um Stefán Ólafsson, prest og skáld sem uppi var á 17. öld. Hún er tvískipt. Fyrir hádegi verður sagt frá Stefán frá ýmsum hliðum. Meðal framsögumanna er Kristján B. Jónasson, rithöfundur og bókaútgefandi, sem nefnir erindi sitt „Hlegið og grátið á Héraði – Stefán Ólafsson lætur sóknarbörnin hafa það óþvegið“ en Gunnar Kristjánsson, fyrrum sóknarprestur í Vallanesi, fer yfir lífshlaup hans. Eftir hádegið verður farið yfir lífshlaup skáldsins með söng og leiklestri en Stefán samdi meðal annars Grýlukvæði. Dagskráin eru haldin í tilefni 50 ára afmælis Egilsstaðakirkju og þess að 400 ár eru liðin frá fæðingu Stefáns.
Strax klukkan 17:00 verður annar viðburður í tilefni afmælis Egilsstaðakirkjunnar, söngleikurinn „Hvar er krossinn?“ verður sýndur í kirkjunni. Leikstjóri er Sándor Kerekes.
AdHd í Egilsbúð
Annað kvöld verður líka kántríveisla með hljómsveitinni Næturvaktinni í Valaskjálf. Hljómsveitin kemur á svið um klukkan níu. Á Djúpavogi verður haldið upp á októberfest í fyrsta sinn á Fatkor brugghúsi.
Síðustu tónleikar helgarinnar verða á sunnudagskvöld klukkan 20:00 í Egilsbúð í Neskaupstað þar sem hljómsveitin AdHd kemur fram. Hljómsveitin vinnur nú að því að klára sína níundu hljóðversplötu sem tekin var upp í Þýskalandi en sveitin hefur spilað víða um álfuna þau rúmlega tíu ár sem hún hefur starfað. Hana skipa Óskar Guðjónsson sem spilar á alls kyns saxófóna, Ómar Guðjónsson sem leikur á gítar, fetilgítar og bassa, Tómas Jónsson sem leikur á ýmis konar orgel, hljóðgervla og píanó og Magnús Trygvason Eliassen sem leikur á trommur og slagverk.
Brúðuleikhúsið Kunu'u Títeres, með Tess Rivarola á Seyðisfirði í fararbroddi, sýnir Leyndarmál ñandutí í Sláturhúsinu á Egilsstöðum klukkan 14:00 á morgun og í Valhöll á Eskifirði klukkan 13:00 á sunnudag. Þar er sameinaðar hefðir frá Paragvæ með sögunni um ñandutí og Íslandi í formi ullar. Sýningarnar marka jafnframt upphaf Evrópuferðar brúðuleikhússins.