Helgin: Fjallahjólaferð, grínisti og draumaheimar

Grínistinn Stefán Ingvar Vigfússon heimsækir Austurland um helgina með glænýja uppistandssýningu sem hann kallar Sjónskekkju. Ferðafélögin á svæðinu verða á ferðinni, bæði gangandi og á hjólum.

Stefán Ingvar ferðast þessa dagana um landið með nýtt uppistand og verður á Tehúsinu á Egilsstöðum á morgun klukkan 20:00. Stefán Ingvar, sem er þekktur úr grínhópnum VHS, er með lausa augasteina sem hefur haft ýmis áhrif á hann, ekki mátt æfa fótbolta eða verða flug og almennt þá sér hann allt skakkt.

Listafólkið Arlene Tucker, Tess Rivarola og Charles Ross standa fyrir sýningunni „Að búa til draumaheima“ í Sláturhúsinu á Egilsstöðum klukkan 16:30 í dag. Gestir geta bæði notið sýningarinnar en líka tekið þátt í henni. Sýningin er fyrsti viðburðurinn í röð þeirra sem mynda Barnamenningarhátíð Austurlands, BRAS.

Ferðafélagsfólk fyllist trúlega valkvíða í fyrramálið því í boði eru annars vegar fjallganga, hins vegar fjallahjólaferð.

Göngufólki býðst að fara á Staðarfjall í Borgarfirði í fylgd Bryndísar Skúladóttur. Sameinast verður í bíla við hús Ferðafélags Fljótsdalshéraðs á Egilsstöðum klukkan 9:00 í fyrramálið.

Fyrir fjallahjólafólkið er ferð af Öxi niður í Fossárdal undir leiðsögn Hafliða Sævarssonar og Guðrúnar Ásgeirsdóttur. Hist er á malarplani um 500 metra norður af veðurathugunarstöðinni á Öxi Héraðsmegin klukkan tíu og hjólað þaðan um 40 km eftir slóða niður í Fossárdal þar sem slegið verður upp grillveislu.

Suður-Ameríkupartý verður á Aski á morgun þar sem hljómsveitin Kaos de Venezuela kemur á sviðið klukkan 23:30. Sveitin kom fram á Menningarnótt í Reykjavík um síðustu helgi.

Á Beituskúrnum í Neskaupstað kemur fram spænska sveitin Ataxía. Lofað er töfrandi kvöldi með sérstakri tónlist þar sem meðal annars er sótter í austurlenskar tónlistarhefðir.


Styrkleikarnir, áheitaganga fyrir krabbameinsfélögin í landinu, hefjast á Vilhjálmsvelli á hádegi á morgun. Gengið verður í heilan sólarhring.

Mynd: Ferðafélag Fjarðamanna  

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.