Helgin: Fjórir austfirskir ökumenn í keppni við Egilsstaði á morgun

Fjórir austfirskir ökumenn eru meðal þeirra sem taka þátt í þriðju umferð Íslandsmótsins í torfæruakstri sem fram fer í Mýnesgrúsum á morgun. Bílarnir verða til sýnis á Egilsstöðum í dag. Tónlistarfólk er á ferð um Austfirði og í Fjarðabyggð heldur listahátíðin Innsævi áfram.

Alls eru 24 ökumenn skráðir til leiks á morgun, 20 í flokki sérútbúinna bíla og fjórir í flokki sérútbúinna bíla. Þar af eru fjórir Austfirðingar, Pétur Viðarsson, Guðlaugur Sindri Helgason og Bjarnþór Elíasson í sérútbúna flokknum en Brynjar Jökull Elíasson í flokki götubíla.

Þeim hefur vegnað ágætlega, Guðlaugur Sindri og Bjarnþór eru jafnir í 4. – 5. sæti Íslandsmótsins meðan Brynjar er efstur eftir að hafa unnið fyrstu tvær umferðirnar. „Brynjar Jökull er á miklu skriði og hlýtur a stefna á heimasigur. Bjarnþór vann síðasta mót sem var bikarmót þannig við treystum á að þeir haldið uppi heiðri heimamanna. Pétur slasaðist á baki í síðustu keppni á Hellu en er að ná sér og getur ekki sleppt því að keppa á heimavelli,“ segir Ástráður Ási Magnússon, úr Akstursíþróttafélaginu Start sem heldur keppnina.

Keppnin hefst klukkan 11:00 í fyrramálið með kynningu á bílum og keppendum. Síðan verða keyrðar sex torfærubrautir, en ekki veðrur tímaþraut þar sem keyrt er yfir vatn eins og oft áður í keppninni við Egilsstaði.

„Það eru margir mjög góðir ökumenn í keppninni í ár og við búumst við miklum tilþrifum. Veðurspáin er að lagast, við getum sagt það sé búið að rykbinda svæðið,“ segir Ástráður Ási.

Frá klukkan 13 í dag verður hægt að sjá bílana við Landsbankann á Egilsstöðum. „Bílarnir eru að tínast inn á svæðið. Þeim verður lagt við bankann þannig að kjörið færi gefst á að sjá þá eins flottir og þeir verða, áður en þeir skítna og beyglast í keppninni.“

Tónlist


Af öðrum viðburðum helgarinnar á Austurlandi þá er tónlistin áberandi. Hljómsveitin Völusteinar spilaði í Neskaupstað í gær og verður á Tehúsinu á Egilsstöðum í kvöld klukkan 20:30. Sveitina skipa þrír Norðfirðingar, Daníel Þorsteinsson, Sigurður Sveinn Þorbergsson og Guðjón Steinar Þorláksson auk söngkonunnar Valgerðar Guðnadóttur. Þau flytja þekkt dægurlög, íslensk sem erlend, í bland við tangó og fleira.

Trúbadorinn Stefnir Stefánsson verður á Aski á Egilsstöðum frá 22:30 í kvöld og í Vök Baths frá 21:00 á morgun.

Mugison lýkur tónleikaferð sinni um kirkjur Austurlands um helgina. Hann spilar á Seyðisfirði í kvöld, Egilsstöðum á morgun og Borgarfirði á sunnudag.

Í sal Frystihússins á Breiðdalsvík verður slegið upp sveitaballi annað kvöld frá klukkan 22:00. Stuðhljómsveitin Ástarpungarnir spilar þar fyrir dansi fram á nótt.

Innsævi


Menningarhátíðin Innsævi í Fjarðabyggð heldur áfram. Dagbjörg Elva Sigurðardóttir opnaði ljósmyndasýninguna „Milli fjalla“ í Þórsmörk í Neskaupstað í gær. Þar eru verk og textar úr samnefndri bók sem kom út árið 2022. Efnið er meðal annars innblásið af dvöl hennar í gegnum árin á heimili tengdaforeldra hennar að Skorrastað.

Húladúllan flytur frumsamið ævintýri „Ljósagull“ í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði klukkan 11 á sunnudagsmorgunn. Tindrandi ljós ljá ævintýrinu lífi og hægt verður að skoða ljósagullin nánar í lok sýningar.

Sama dag klukkan 15:00 lesa norðfirsku skáldin Jón Knútur Ásmundsson og Anna Karen Marinósdóttur upp úr ljóðabókum sem þau gáfu út árið 2022. Þetta voru fyrstu ljóðabækur beggja þótt skáldin séu á ólíkum aldri. Þau lesa einnig upp nýtt efni.

Minjaskráning og fjallganga


Á Skriðuklaustri verður klukkan tíu í fyrramálið haldið örnámskeið í notkun snjallsíma við skráningu menningarminja. Kennt verður á nýtt smáforrit sem er í þróun og veitt góð ráð um hvernig eigi að taka myndir af minjum og fá hnit, bæði með símum og flygildum.

Ferðafélags Djúpavogsbúa stendur fyrir kvöldgöngu á Búlandstind á sunnudag klukkan 21:00. Hafliði Sævarsson leiðir ferðina á tindinn í 1069 metra hæð.

Þá lýkur gönguvikunni Á fætur í Fjarðabyggð um helgina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar