Helgin: Frá orgelkrökkum yfir í þungarokk

Orgelkrakkahátíð verður slegið upp á nokkrum stöðum í fjórðungnum yfir helgina. Á Norðfirði spilar þungarokkssveitin Rock Paper Sisters sem að miklu leyti sem skipuð hljóðfæraleikurum með tengsl við Austurland.

Fyrsta orgelkrakkahátíðin verður á Norðfirði á hádegi í dag. Hún verður síðan í Egilsstaðakirkju 13:00 á morgun og á Seyðisfirði klukkan 11:00 á sunnudagsmorgunn.

Guðný Einarsdóttir og Sigrún Magna Þorsteinsdóttir leiða dagskrána sem hefst ýmist á tónleikum með þekktum lögum eða orgelsögu þar sem sagt er frá pípunum í orgelinu. Síðan er vinnusmiðja þar sem börn setja saman pípuorgel sem þau spila að lokum á.

Nokkrir viðburðir eru undir merkjum barnamenningarhátíðarinnar Bras yfir helgina. Húladúllan verður með sirkussmiðju í Valhöll frá 17-18 í dag. Smiðjan er ætluð börnum í 1. – 4. bekk sem fá að spreyta sig á fjölbreyttum sirkusáhöldum og læra trix.

Húladúllan verður síðan með sýninguna Ljósagull í Egilsbúð í Neskaupstað klukkan 11:30 á morgun. Um er að ræða frumsamið ævintýri sem gætt er lífi með ljósum af ýmsu tagi og loks þátttöku barnanna.

Á Seyðisfirði stendur Tækniminjasafnið fyrir listasmiðju fyrir börn á aldrinum 5-10 ára í gömlu Vélsmiðjunni. Smiðjan er jafnframt hluti af haustroða, haust- og uppskeruhátíð á Seyðisfirði. Þungamiðjan í þeirri hátíð er annars vegar listsýning og kynning á nýjum vörum Ró í Herbugalleríi frá 12-16, hins vegar markaðsdagur á sama tíma í Herðubreið. Úrslitin í sultukeppninni verða kynnt þar klukkan 14:30.

Hljómsveitin Rock Paper Sisters fylgir um þessar mundir eftir plötunni „One in a Million“ sem kom út í ágúst. Sveitina skipa meðal annarra Þorsteinn Árnason, bassaleikari frá Norðfirði, Þórður Sigurðsson, fyrrum organisti Norðfjarðarkirkju og Jón Björn Ríkarðsson sem oftast er kenndur við Brain Police en vann um árabil í álverinu á Reyðarfirði. Með þeim eru gítarleikarinn Davíð Sigurgeirsson og söngvarinn Eyþór Ingi. Sveitin kemur fram í Egilsbúð í Neskaupstað og er opnað þar klukkan 21:00. Tónleikarnir eru hluti af Tónaflugi í Neskaupstað.

Á sunnudag verður 120 ára afmæli Vopnafjarðarkirkju fagnað með messu klukkan 14. Messan slær jafnframt botninn í Vinavikuna. Kvenfélagskaffi er á eftir.

Í úrvalsdeildunum í blaki spilar Þróttur á móti KA. Leikið er bæði í karla og kvennaflokki á Akureyri á sunnudag.

Mynd: Ómar Bogason


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.