Helgin: Gullmávurinn í hjarta sýningar um Kjarval

Bátur Jóhannesar Sveinssonar Kjarval, Gullmávurinn, er í miðju nýrrar sýningar um málarann sem opnuð verður í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á morgun. Sýningin er hluti af Ormsteiti sem hefst um helgina.

„Þetta er minjasýning um Kjarval og Austurland. Hugmyndin að henni kviknaði þegar ég frétti af tilvist bátsins þegar ég var að vinna í verkefni fyrir Minjasafn Austurlands,“ segir Hanna Christel Sigurkarlsdóttir, sem stýrir sýningunni.

Jóhannes Kjarval, einn fremsti málari Íslandsögunnar, var fjögurra ára þegar hann fluttist austur á Borgarfjörð eystra og ólst þar upp fram á unglingsaldur. Hann flutti þá til Reykjavíkur og síðan erlendis í nám en kom reglulega austur, sérstaklega eftir að hann eignaðist lítinn skika í landi Ketilsstaða í Hjaltastaðaþinghá. Þar byggði hann sér lítið sumarhús í Kjarvalshvammi.

Þegar Kjarval varð sjötugur var honum gefinn norskur trébátur. Draumur Kjarvals varð að sigla bátnum niður Selfljót og yfir á Borgarfjörð. Kjarval lét drauminn rætast þremur árum eftir að hann eignaðist bátinn og sigldi þá frá ystu brúnni yfir Selfljót og yfir á Borgarfjörð. „Mér fannst eitthvað ljóðrænt og fallegt við þessa ferð eða gjörning, sem kann að hafa verið hálfgerður óður til æskuslóðanna á Borgarfirði,“ segir Hanna.

Fyrsta og eina ferð bátsins


Hanna segir að ferðin hafi um margt verið kostuleg. Kjarval hafi heimtað að sigla bátnum hjálparlaust en bílstjóri hans fylgdist með honum úr landi og síðar líka Andrés Björnsson, bóndi á Snotrunesi í Borgarfirði. Kjarval lenti í vandræðum á grynningum á leiðinni út en eftir að komst yfir þeir var leiðin greið. Þetta var fyrsta og eina ferð Gullmávsins og aldrei ljóstraði Kjarval upp hver hugmyndin hefði nákvæmlega verið á bakvið siglinguna. Báturinn hefur síðan lengst af verið geymdur í bátaskýli í Kjarvalshvammi.

Munirnir á sýningunni koma úr safni Minjasafns Austurlands sem á nokkuð af munum úr búi Kjarvals. Á sýningunni má meðal annars sjá nokkra af höttunum hans, en Kjarval var yfirleitt með höfuðfat og skipti jafnvel um eftir því hvern hann var að fara að hitta.

Sýningin opnar í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á morgun klukkan 16:00 og stendur í heilt ár. Hún er hluti af samstarfsverkefni Sláturhússins, Minjasafnsins, Skaftfells á Seyðisfirði um sýningar sem tengjast Kjarval. Sláturhúsið mun í október hýsa sýningu Borgarleikhússins um Kjarval, sem ákveðnum árgöngum grunnskólanna verður boðið á. Í tengslum við þessar tvær sýningar hefur verið unnið fræðsluverkefni um Kjarval. Málverk eftir hann verða svo sýnd í Skaftfelli næsta sumar.

Ormsteiti og Bras


Sýningin er hluti af þeim viðburðum sem eru undir hatti Ormsteitis um helgina. Af öðrum viðburðum má nefna Melarétt í Fljótsdal. Byrjað verður að reka inn úr safnhólfi klukkan 11:00 og rétta upp úr hádegi. Annað kvöld verða tónleikar á vegum Tónleikafélags Austurlands til styrktar geðheilbrigðismálum í fjórðungnum í Valaskjálf klukkan 20:30.

Barnamenningarhátíðin BRAS heldur áfram. Um helgina verður Auðdís Tinna Hallgrímsdóttir, kvikmyndagerðarkona, með smiðju fyrir ungt fólk á aldrinum 14-18 um gerð mínútumynda í Sláturhúsinu á laugardag og Valhöll á Eskifirði á sunnudag.

Gunnars stendur fyrir málstofu um fornar ferðaleiðir í og úr Fljótsdal sem tengjast klaustrinu sem starfrækt var á Skriðu á 16. öld. Dr. Steinunn Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur, segir frá rannsóknum sínum á þessum leiðum og tengingum klaustursins í ýmsar áttir. Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, ræðir um leiðangra sem hann hefur farið til að staðsetja annars vegar leiðina suður yfir jökul til verstöðvarinnar Hálsahafnar í Suðursveit og til verslunarstaðarins Gautavíkur í Berufirði. Málstofan hefst klukkan 13:00 á sunnudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar