![](/images/stories/news/umhverfi/Héraðsdætur.jpg)
Helgin: Héraðsdætur bjóða upp á bjúgu og bjór
Kvennakórinn Héraðsdætur blæs til skemmtikvölds á Kaffi Egilsstöðum í kvöld, þar sem gestum verður boðið upp á ljúfa tóna, bjúgu frá Norðlenska, uppstúf, grænar baunir, rauðkál og Royal karamellubúðingur með rjóma í eftirrétt.
„Við höfum verið að hugsa um sniðugar leiðir til fjáröflunar, að gera eitthvað öðruvísi en hefur verið í boði hér. Bæði til að styrkja kórstarfið, árlegu tónleika okkar, tónleikaferðir og önnur verkefni sem við erum með í pípunum. Að hafa mat og skemmtun var hugmynd sem þróaðist svo í þetta bráðskemmtilega þema okkar á þessu skemmti-og menningarkvöldi, Bjúgu og bjór. Einstaklega þjóðlegt og öðruvísi enda ekki oft sem hægt er að skella sér út að borða og fá sér bjúgu, hinn klassíska eftirrétt Royal karamellubúðing með rjóma og jafnvel einn kaldan með,“ segir Lísa Leifsdóttir, ein Héraðsdóttirin.
„Svo verður að sjálfsögðu skemmtun með frábæru tónlistarfólki, sem við þökkum kærlega fyrir að vilja taka þátt í þessu með okkur, sem og happdrætti með glæsilegum vinningum. Við vonumst að sjálfsögðu til að sjá sem flesta og að þetta geti orðið árviss viðburður, líkt og vor- og jólatónleikarnir okkar. VIð hvetjum því bændur og búalið sem og alla sem finnast bjúgu, búðingur og bjór góður, að mæta og borða og njóta þessa skemmtilega kvölds með okkur.“
Lísa vill minna á ljóðasamkeppnina Héraðsljóðaflóð, en kórinn efnir um þessar mundir til ljóðasamkeppni þar sem andi ljóðanna á að fanga einkenni Fljótsdalshéraðs og eða fjalla um dætur Héraðs. Skilafrestur er til 3. apríl og má ljóðið ekki hafa birst áður. Þrenn verðlaun verða veitt eftir val dómnefndar og verða þau nýtt sem grunnur lagasamkeppnar sem staðið verður að í haust. Fyrirspurnir um skil er hægt að senda í skilaboðum hér.
Nánari upplýsingar um skemmtikvöldið má finna hér.
Fiðlutónleikar á Eskifirði
Fiðluleikararnir Hlíf Sigurjónsdóttir og Martin Frewer, sem skipa Dúó Landon, verða með tónleika í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði í kvöld. Flutt verða fiðludúó sem miðla sögu þeirrar tónlistar og þróun fiðlutækninnar. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og er aðgangur ókeypis.
Seinni tvær sýningar á We Will Rock You
Leikfélagsins Djúpið í Verkmenntaskóla Austurlands sýnir seinni tvær sýningar söngleiksins We Will Rock You í Egilsbúð á laugardaginn, en hann er saminn kringum lög rokkhljómsveitarirnar Queen í leikstjórn Benediks Karls Gröndal.
Viðtal við aðalleikkonuna Kötlu Heimisdóttur má lesa hér og nánari upplýsingar um miðaverð og tímasetningar má sjá hér.
Lokasýning á Ronju Ræningjadóttur
Lokasýning á Ronju Ræningjadóttur, í uppfærslu Leikfélags Menntaskólans á Egilsstöðum er í Sláturhúsinu í kvöld, föstudagskvöld. Umfjöllun um sýninguna má lesa hér og almennar upplýsingar um tíma og verð hér.
Stanslaust stuð á Feita fílnum
Að vanda verður nóg um að vera Feita fílnum á Egilsstöðum um helgina – blústónleikar og trúbador. Hér má sjá allt um helgarstuðið.