Helgin: Hýr halarófa orðin tíu ára
Gleðigangan Hýr halarófa á Seyðisfiðri fagnar tíu ára afmæli sínu um helgina. Um leið efnir Hinsegin Austurland til Regnbogahátíðar með viðburðum á Seyðisfirði og Héraði.Regnbogahátíðin hófst í gær með regnbogamessu á Seyðisfirði. Í dag verða hátíðarhöld á Egilsstöðum. Regnbogagata verður málið við Fagradalsbraut klukkan 17:00 en hálftíma síðar verður Regnbogahátíðin formlega sett í Sláturhúsinu. Þar verða tónlistaratriði, hátíðaræður og verðlaunaafhending í kökukeppni ásamt öðru. Í kvöld klukkan 21:00 verður síðan regnbogapartý í Tehúsinu.
Halarófan sjálf fer af stað úr miðbæ Seyðisfjarðar klukkan 14:00 á morgun. Undirbúningur hefst klukkutíma fyrr með skiltagerð og andlitsmálun. Gangan tekur um hálftíma og að henni lokinni tekur við útidagskrá, áþekk þeirri sem er í Sláturhúsinu í dag. Regnbogadiskó er síðan í Herðubreið eftir hana og karíókí um kvöldið á Kaffi Láru.
Á sunnudag er síðan uppistand með Sindra „Sparkle“ Frey á Tehúsinu klukkan 17:00 og tónleikar með Sigurði Guðmundssyni í Végarði í Fljótsdal klukkan 20:00.
Fyrr um daginn, eða klukkan 14:00, verður vígsluathöfn nýs þjónustuhúss við Hengifoss.
Hanna Christel Sigurkarlsdóttir verður með listsýninguna „Fjallahringir“ í Steinholti á Seyðisfirði í ágúst. Þar sýnir hún myndir sem hún hefur tekið á Seyðisfirði og unnið með. Hanna Christel segir frá verkunum klukkan 17:00 í dag.
Á Seyðisfirði verður líka í kvöld klukkan 22:00 árleg kertafleyting í þágu friðar. Kertunum verður fleytt á tjörninn við miðbæjartorgið.
Hafnfirska stuðsveitin Dan van Dango heldur tónleika á Tehúsinu annað kvöld klukkan 21:00.
Árleg skógargleði verður haldin í Vallanesi frá klukkan 13-17 á sunudag. Þar verða listamenn, smáframleiðendur með sölu og skógarmenn leiðbeina við tálgun.
FHL á heimaleik gegn ÍBV í Lengjudeild kvenna í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 12:30 í á morgun. Með sigri verður úrvalsdeildarsæti FHL svo gott sem gulltryggt. KFA á síðan leik gegn Fjallabyggð í annarri deild karla strax í kjölfarið eða klukkan 16:00