Helgin: Leikhús, körfubolti, blak og bretti
Austfirðingar halda í fyrsta skipti Íslandsmót á snjóbrettum en keppt verður í Oddsskarði um helgina. Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum frumsýndi í gærkvöldi leikverkið Eldhús eftir máli.
Það er Brettafélag Fjarðabyggðar sem heldur mótið í Oddsskarði. Á morgun er keppt í brettastíl. Flokkar 7-11 ára keppa klukkan tíu og 12-18 ára klukkan tólf.
Á sunnudag er keppt í brettakrossi. Yngri krakkarnir verða klukkan 13:30 en þeir eldri klukkan 15:00. Verðlaunaafhending verður að lokinni keppni og er áætluð klukkan 16:30.
Kvennalið Þróttar í blaki tekur á móti nafna sínum úr Reykjavík á Norðfirði í leik sem hefst klukkan tvö.
Körfuknattleikslið Hattar tekur á móti Tindastóli í úrvalsdeildinni klukkan 18:30 á sunnudag. Liðið spilaði í gær við Íslandsmeistara KR og tapaði 87-78 eftir að hafa verið yfir í hálfleik, 37-41. KR-ingar sigldu fram úr með frábærum þriðja leikhluta sem þeir unnu 35-18. Hattarmenn unnu síðan loka leikhlutann 15-19.
Tobin Carberry var þeirra stigahæstur með 33 stig og 11 fráköst. Hattarmenn lentu í villuvandræðum í lokin þar sem bæði Eysteinn Bjarni Ævarsson og Mirko Virijevic fóru út af með fimm villur.
Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum frumsýndi í gærkvöldi leikverið Eldhús eftir máli – hversdagslega hryllingssögur. Leikverkið er eftir Völu Þórsdóttur byggt á smásögum Svövu Jakobsdóttur.
Önnur sýning verður í kvöld og sú næsta á sunnudag en allar eru klukkan 20:00 í Sláturhúsinu. Eftir þriðju sýningu á miðvikudagskvöld fer sýningin á flakk um Austfirði út mánuðinn. Halldóra Malin Pétursdóttir leikstýrir.