Helgin: Meira en bara pönk á Austur í rassgati
Sex hljómsveitir koma fram á tónlistarhátíðinni Austur í rassgati sem haldin verður í fimmta skipti í Neskaupstað um helgina. Pönkhljómsveitir mynda uppistöðuna í hátíðinni þótt þar leynist popp inn á milli.Dagskráin verður þétt á hátíðinni með sex hljómsveitum. Þær eru Flott, Sóðaskapur, Coney Island Babies, Chögma, Sárasótt og DDT-skordýraeitur.
„Við höfum alltaf verið með ungar og áhugaverðar sveitir, eins og Chögma og Sárasótt en líka fengið eitthvert stórt band að. Í ár er það Flott sem er trúlega poppaðasta sveitin sem hefur komið fram á hátíðinni. En það veitir ekki af því að hafa eitthvað létt með í bland,“ segir Pjetur St. Arason, úr DDT-skordýraeitri, en sú sveit stendur að baki hátíðinni.
En þrátt fyrir að vera ekki eiginleg pönksveit þá hefur Flott sínar teningar við senuna, einkum með broslegum textum sínum sem oft innihalda ádeilu á samfélagið, eins og í pönkinu. „Þær hafa margt að segja. Ef það er hlustað eftir textunum þá eru þeir mjög skemmtilegir og það skiptir líka máli,“ segir Pjetur.
Austfirsk tenging í Sóðaskap
Sóðaskapur er hin hljómsveitin sem ekki starfar á Austurlandi. Hún hefur sent frá sér nokkur lög og komið fram á nokkrum tónlistarhátíðum, þar á meðal LungA í sumar. Sveitin tók þátt í Músiktilraunum 2022 og komst í úrslit lagakeppni útvarpsstöðvarinnar X-977 í fyrra.
En þótt sveitin starfi ekki á Austurlandi þá hefur hún sínar tengingar austur því ein úr sveitinni, Lára Boyce er alin upp á Fljótsdalshéraði. Austfirðingar þekkja trúlega betur til móður hennar, rithöfundarins Ingunnar Snædal frá Skjöldólfsstöðum á Jökuldal.
Leitast við að leiðrétta kynjahallann
Flott og Sóðaskapur eiga það sameiginlegt að vera eingöngu skipaðar konum. Í Coney Island Babies og Chögma eru konur sem syngja. Pjetur segir skipuleggjendur hátíðarinnar leggja sig fram um að jafna kynjahlutföll flytjenda.
„Við höfum það alltaf bakvið eyrað. Það er svolítil pungfýla af svona tónlistarhátíðum. Okkur hefur aldrei tekist jafn vel og nú að jafna út kynjahlutföllin.“
Aðspurður um eigin sveit, DDT-skordýraeitur, segir Pjetur að hún sé í fínu formi eftir stífar æfingar að undanförnu. Hátíðin er haldin í Egilsbúð og hefst klukkan 19:30 á laugardag.
Tónlist verður víðar í boði yfir helgina. Þannig verður hljómsveitin Hvanndalsbræður með tónleika bæði föstudags- og laugardagskvöld á Tehúsinu á Egilsstöðum.
Margt í boði fyrir barnafjölskyldur
Barnamenningarhátíð Austurlands, BRAS, er að fara af stað. Á hennar vegum verður Svakalega sögusmiðjan á Bókasafni Héraðsbúa frá 15-17 í dag. Smiðjan er ætluð börnum á aldrinum 8-12 ára sem læra þar að skrifa og teikna sögur og fá hugmyndir. Elva Rún Þorgeirsdóttir, rithöfundur og Blær Guðmundsdóttir, teiknari, stýra smiðjunni en þær hafa meðal annars unnið saman að bókum um jólasveininn Stúf.
Á sunnudag klukkan 10:30 verður síðan afmælishátíð barnanna í Egilsstaðakirkju, en kirkjan er 50 ára í ár. Hátíðin markar meðal annars upphaf sunnudagaskóla kirkjunnar sem verður á þessum tíma alla sunnudaga í vetur. Sérstakur gestur hátíðarinnar verður töframaðurinn Einar Aron sem heldur töfrasýningu áður en afmæliskaffi verður í lokin.
Einar Aron verður síðan áfram á svæðinu og heldur töfrasmiðjur fyrir 8-12 ára á bókasafninu á Seyðisfirði á þriðjudag, á bókasafninu á Djúpavogi á miðvikudag og á bókasafninu á Egilsstöðum á fimmtudag.
Ferðafélag Fjarðamanna stendur fyrir barna- og fjölskylduferð í Vöðlavík um helgina. Mæting er klukkan 11 á morgun á Víkurheiði á leiðinni til Vöðlavíkur. Félagið stendur einnig fyrir göngu frá Fagradal upp á Kistufell og yfir í Skriðdal klukkan 9:00 í fyrramálið. Þá er hist við upphaf gönguleiðar á Hött við Gilsárbrú í Skriðdal.