![](/images/Sjóklúbburinn_á_Eskifirði.jpg)
Helgin: Sjómannadagsgleði, Verzlanafjelag Seyðisfjarðar opnar og fleira
Viðburðir tengdir sjómannadeginum verða fyrirferðamiklir í fjórðngnum um helgina auk þess sem fjölmargt annað skemmtilegt verður á dagskrá.
Fjarðabyggð
Sjómannadeginum verður fagnað með veglegri hátíðardagskrá í Neskaupstað og Eskifirði og hófst hún strax í gær og stendur fram á sunnudag. Á Fáskrúðsfirði verður dagskrá laugardag og sunnudag.
Boðið er upp á kvennahlaup, sundlaugarpartý, dorgveiðikeppni, hoppukastala, hópsiglingar, sjósund, unglingaball, bílasýningu, myndlistarsýningu og tónleika svo eitthvað sé nefnt.
Spilað verður fyrir dansi bæði í Neskaupstað og á Eskifirði. Á Norðfirði verða Í Svörtum fötum á föstudeginum og Eyþór Ingi ásamt hljómsveit á laugardeginum. Á Eskifirði heldur Dj Doddi Mix uppi fjörinu á kaffihúsinu á föstudeginum en á laugardeginum sér Friðrik Ómar og hjómsveit ásamt Regínu Ósk, Siggu Beinteins og Hreim um sjómannadagsballið í Valhöll. Tengla á dagskrána má finna hér.
Djúpivogur
Vegleg dagskrá í tengslum við sjómannadaginn verður einnig á Djúpavogi á laugardag og sunnudag, en meðal annars verða bæði sagðar „barnvænar“ sjómannasögur og einnig meira „fullorðins“ eins og segir í dagskránni, sem má sjá hér.
Seyðisfjörður
Mikil gleði verður einnig á Seyðisfirði um helgina, en nýstofnað Verzlanafjelag Seyðisfjarðar býður alla bæjarbúa og gesti velkomna að taka þátt í opnunar- og afmælisgleði, laugardagdinn 4. júní næst komandi frá klukkan 13-18. Boðið verður upp á glæsileg tilboð, lukkuleiki og léttar veitingar.
Verzlanafélagið samanstendur af sex glæsilegum lífstíls- og hönnunarbúðum hér á Seyðisfirði. Hér má finna staðsetningu búðanna og eru allir hvattir til að líta við og kynna sér hvað í boði er.
Skaftfell - myndlistarmiðstöð Austurlands verður með opnun á viðburðinum Samkoma handan Norðarvindsins í sýningarsal Skaftfells á morgun klukkan 16:00. Boðið verður upp á viðburðaríka dagskrá meðal annars gjörninga og kvikmyndasýningar samhliða sýningunni sjálfri. Dj. flugvél og geimskip spilar á opnuninni. Léttar veitingar í boði fyrir gesti. Nánar má lesa um sýninguna hér.
Borgarfjörður
Tónleikasumarið er að hefjast á Borgarfirði og fyrstu tónleikar raðarinnar Já sæll á Borgarfirði verða í Fjarðaborg í kvöld þegar hljómsveitin Ylja stígur á stokk. Nánar má fylgjast með tónleikaröðinni hér.
Skriðuklaustur
Myndlistarmaður Pétur Behrens opnar sýningu í gallerí Klaustri á myndum sínum af torfbyggingum að Langhúsum í Fljótsdal laugardaginn 4. júní kl. 14. Sýningin stendur til 5. júlí og er opin alla daga kl. 10-18. Nánar má lesa um viðburðinn hér.
Ljósmynd: Sjósportsklúbbur Austurlands stóð fyrir fjöri á Eskifirði í gær og leyfði fólki að prufa kajaka og seglbáta við Mjóeyri.