Helgin: Sjómannadagsgleði, Verzlanafjelag Seyðisfjarðar opnar og fleira

Viðburðir tengdir sjómannadeginum verða fyrirferðamiklir í fjórðngnum um helgina auk þess sem fjölmargt annað skemmtilegt verður á dagskrá.



Fjarðabyggð

Sjómannadeginum verður fagnað með veglegri hátíðardagskrá í Neskaupstað og Eskifirði og hófst hún strax í gær og stendur fram á sunnudag. Á Fáskrúðsfirði verður dagskrá laugardag og sunnudag.

Boðið er upp á kvennahlaup, sundlaugarpartý, dorgveiðikeppni, hoppukastala, hópsiglingar, sjósund, unglingaball, bílasýningu, myndlistarsýningu og tónleika svo eitthvað sé nefnt.

Spilað verður fyrir dansi bæði í Neskaupstað og á Eskifirði. Á Norðfirði verða Í Svörtum fötum á föstudeginum og Eyþór Ingi ásamt hljómsveit á laugardeginum. Á Eskifirði heldur Dj Doddi Mix uppi fjörinu á kaffihúsinu á föstudeginum en á laugardeginum sér Friðrik Ómar og hjómsveit ásamt Regínu Ósk, Siggu Beinteins og Hreim um sjómannadagsballið í Valhöll. Tengla á dagskrána má finna hér.


Djúpivogur

Vegleg dagskrá í tengslum við sjómannadaginn verður einnig á Djúpavogi á laugardag og sunnudag, en meðal annars verða bæði sagðar „barnvænar“ sjómannasögur og einnig meira „fullorðins“ eins og segir í dagskránni, sem má sjá hér.


Seyðisfjörður

Mikil gleði verður einnig á Seyðisfirði um helgina, en nýstofnað Verzlanafjelag Seyðisfjarðar býður alla bæjarbúa og gesti velkomna að taka þátt í opnunar- og afmælisgleði, laugardagdinn 4. júní næst komandi frá klukkan 13-18. Boðið verður upp á glæsileg tilboð, lukkuleiki og léttar veitingar.

Verzlanafélagið samanstendur af sex glæsilegum lífstíls- og hönnunarbúðum hér á Seyðisfirði. Hér má finna staðsetningu búðanna og eru allir hvattir til að líta við og kynna sér hvað í boði er.

Skaftfell - myndlistarmiðstöð Austurlands verður með opnun á viðburðinum Samkoma handan Norðarvindsins í sýningarsal Skaftfells á morgun klukkan 16:00. Boðið verður upp á viðburðaríka dagskrá meðal annars gjörninga og kvikmyndasýningar samhliða sýningunni sjálfri. Dj. flugvél og geimskip spilar á opnuninni. Léttar veitingar í boði fyrir gesti. Nánar má lesa um sýninguna hér.


Borgarfjörður

Tónleikasumarið er að hefjast á Borgarfirði og fyrstu tónleikar raðarinnar Já sæll á Borgarfirði verða í Fjarðaborg í kvöld þegar hljómsveitin Ylja stígur á stokk. Nánar má fylgjast með tónleikaröðinni hér.


Skriðuklaustur

Myndlistarmaður Pétur Behrens opnar sýningu í gallerí Klaustri á myndum sínum af torfbyggingum að Langhúsum í Fljótsdal laugardaginn 4. júní kl. 14. Sýningin stendur til 5. júlí og er opin alla daga kl. 10-18. Nánar má lesa um viðburðinn hér.

Ljósmynd: Sjósportsklúbbur Austurlands stóð fyrir fjöri á Eskifirði í gær og leyfði fólki að prufa kajaka og seglbáta við Mjóeyri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar