Helgin: Svínavatnið og beikonís í Fjarðarborg annað kvöld
„Auðvitað erum við að vísa í samfélagssvínin sem áætlað er að komi hingað á Borgarfjörð og kannski grínast aðeins með það,” segir Ásgrímur Ingi Arngrímsson, einn af vertunum í Fjarðarborg, en annað kvöld verður sannkölluð svínaveisla í bænum þar sem meðal annars verður boðið upp á beikonís.Í auglýsingu segir að Fjarðarborg breytist annað kvöld í svokallaðan „svínveitingastað” þar sem ýmsar svínveitingar verða reiddar fram auk þess sem Svínavatnið verður dansað.
„Við erum með svínveitingaleyfi sem við hyggjumst nýta annað kvöld. Samfélagssvínin eru enn ekki komin og kannski má segja að þessi gjörningur sé ákveðinn undirbúningur fyrir það. Okkur hér í Fjarðaborg þykir hins vegar best að borða svín og bjóðum við þess vegna til þessarar veislu með því að opna svínveitingastað, en aðeins þetta eina kvöld,” segir Ásgrímur Ingi.
Gestir geta farið að hlakka til og eftirrétturinn er ekki af lakara taginu. „Það er beikonís sem þegar er tilbúinn. Ég verð nú að viðurkenna að ég var andskoti svartsýnn á að hann yrði eitthvað sérstaklega góður, ekki frekar en ef búinn væri til hákarlsís eða eitthvað svoleiðis. Hann er bara nokkuð góður,” segir Ásgrímur Ingi og bætir því við að honum þyki ekki ólíklegt að Kjörís og MS muni bítast um uppskriftina eftir helgina.
Þá verður Svínavatnið sett upp og dansað af vertunum sjálfum. „Segja má að það sé svona póstmódernísk ádeila á matarsóun og fleira. Það verður verkefni kvöldsins í kvöld að fullæfa það við tónlist, en við erum að fá til okkar atvinnudansarann Ármann Einarsson til þess að fara yfir kóríógrafíuna með okkur. Við vertarnir ætlum að láta vaða og flytja verkið sjálfir, ætli það fari ekki að verða síðasti sjens, en hingað til höfum við verið mikið í því að borða afganga og hefur það bitnað örlítið á holdarfarinu. Við ætlum því að grípa tækifærið og dansa meðan við erum ennþá svona spengilegir og léttir á okkur. Það er komið „dresskót” en það verður ekki gefið upp í smáatriðum, en það á að vera þröngt,” segir Ásgrímur Ingi.
Landsmót UMFÍ 50 ára og eldri í Neskaupstað
Landsmót UMFÍ fyrir 50 ára og eldri er hafið í Neskaupstað og stendur til sunnudags. Hér má lesa frétt um það.
Í minningu móður minnar – 70 ár frá komu þýska verkafólksins
Hólmfríður Ófeigsdóttir sýnir prjónað handverk úr ull og hreindýraleðri í Staðarholti á Vopnafirði um helgina. Sýningin hefst í dag föstudag og stendur til sunnudags. Aðrir lista- og handverksmenn koma einnig til með að sýna verk sín.
Hernámsdagurinn á Reyðarfirði
Hin árlegi hernámsdagur verður haldinn á Reyðarfirði á sunnudaginn. Að vanda verður eitt og annað um að vera á Stríðsárasafninu í tilefni dagsins.
Jazztónleikar í beituskúrnum
Yumi Ito verður með sólótónleika á Beituskúrnum á sunnudagskvöldið. Yumi er jazz-söngkona og lagahöfundur frá Sviss en með Pólskar og Japanskar rætur. Eftir að hafa hrifist af Íslandi þegar hún heimsótti það í fyrrasumar er hún komin í listamannadvöl í Art attack.