Helgin: Leitað að aukaleikurunum í nýja austfirska kvikmynd

Austfirðingar þurfa ekki að láta sér leiðast um helgina en ýmislegt er á döfinni í fjórðungnum. Í Safnahúsinu á Egilsstöðum verður farið yfir sögu þýskra kvenna á Íslandi, haustgleði og töðugjöld verða í Burstafelli, skógarmessa í Heydalaprestakalli og tónleikar í sundlauginni í Neskaupsstað.

 

Um helgina standa jafnframt yfir tökur á nýrri kvikmynd Ásgeirs Hvítaskálds Þórhallssonar, Skip úr fortíðinni. Á morgun laugardag verður hóptaka í Fellabæ, allir eru velkomnir og er mæting við búningalofti Leikfélags Fljótsdalshéraðs hjá bæjarskrifstofunum að Lyngási 12 klukkan 13:00.

Myndin er eftir Ásgeir sjálfan og fjallar um gamlan mann með samviskubit. „Það varð skipsbruni og fullt af fólki sem brann inni eða drukknaði í ferju. Myndin fjallar um eiganda skipsins sem er orðinn gamall og byrjaður að fá samviskubit vegna þess að hann kveikti í skipinu til þess að fá tryggingafé.“

Senan sem stendur til að taka upp á morgun gerist árið 1992 og eru leikarar sem hyggjast mæta hvattir til að klæðast í fötum frá þeim tíma. „Þetta er atriði þar sem gamli maðurinn situr í íbúðinni sinni og allir þeir sem fórust með skipinu koma og herja á hann í draumi. Þetta er svaka drama,“ segir Ásgeir.

Takan á morgun er sú síðasta alls eru þetta búnir að vera 25 tökudagar í Fellabæ. Aðalleikarar eru Pétur Guðvarðsson og Illugi Arinbjörn Már Jónsson. Myndin verður klippt í vetur og í framhaldinu vonandi sýnd í Valaskjálf næsta sumar að sögn Ásgeirs.

Þýskar konur, töðugjöld, skógarmessa og sundsöngur

Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Minjasafn Austurlands og Bókasafn Héraðsbúa bjóða til upplesturs og spjalls með þýska rithöfundinum, blaðamanninum og sagnakonunni Anne Siegel í Safnahúsinu á Egilsstöðum á laugardaginn klukkan 14:00. Sumarið komu hingað til lands 130 þýskar konur og 50 karlmenn til að starfa sem landbúnaðarverkamenn og var það stærsti hópur útlendinga sem komið hafði til Íslands fyrir utan hernámsliðið. Margir settust hér að og fyrir tíu árum voru afkomendur Þjóðverjanna taldir að minnsta kosti 2000 manns. Þýski rithöfundurinn, blaðamaðurinn og sagnakonan Anne Siegel hefur gert sögu þýskra kvenna á Íslandi skil í bók sinni Frauen Fische Fjorde á laugardaginn mun Anne lesa upp úr bók sinni í Safnahúsinu, dagskráin fer fram á ensku en lesinn verður kafli úr bókinni í íslenskri þýðingu Magnúsar Diðriks Baldurssonar.

Haustinu verður fagnað með töðugjöldum á laugardaginn í Burstarfelli. Fólk er hvatt til að koma með útileguhýsi, tjalda og njóta helgarinnar við Minjasafnið á Bustarfelli en þar verður einnig afhjúpaður rúnasteinn sem fannst í Hofskirkjugarði fyrir nokkru síðan.

Messað verður úti í skógi í Heydalaprestakalli á sunnudaginn klukkan 14.00. Messan fer fram í í Tinnuskógi á Landnyðringsskjólsbökkum þar sem Breiðdælingar hófuskógrækt um miðja síðustu öld. Í jaðri skógarins rennur Tinnudalsá en umhverfið er afar gróðursælt og umvafið tignarlegum fjöllum. Séra Gunnlaugur Stefánsson sóknarprestur leiðir athöfnina og Kirkjukór Heydala- og Stöðvarfjarðarsókna sönginn undir stjórn Guðnýjar Valborgar Guðmundsdóttur, boðið verður upp á hressingu eftir messu.

Í kvöld verða sérstakir tónleikar í Neskaupstað en þá heldur söngkonan Martina í sundlauginni í bænum. Tónleikarnir hefjast klukkan 19:00 og þeirra verður hægt að njóta úr heita pottinum.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar