![](/images/stories/news/2016/Já_sæll_bíll.jpg)
Helgin: Tónleikaröð Fjarðaborgar er brjáluð hugmynd
Þetta er auðvitað brjáluð hugmynd, segir Hafþór Snjólfur Helgason, á Borgarfirði um tónleikaröðina sem hann og fleiri standa fyrir hvert sumar í Fjarðaborg.
Aðrir tónleikar sumarsins í tónleikaröðinn,i Já Sæll í Fjarðaborg á Borgarfirði, verða haldnir annað kvöld, þegar sagnaskáldið Svavar Knútur stígur á stokk, en hjómsveitin Ylja hóf tónleikasumarið á Borgarfirði síðustu helgi og spilaði fyrir fullu húsi.
Hvernig er mögulegt að halda tónleika á Borgarfirði hverja helgi yfir sumartímann?
„Þetta auðvitað meikar ekki nokkurn sens og er drifið áfram af hugsjón til þess að hafa líf í Fjarðaborg allt sumarið,“ segir Hafþór Snjólfur, veitingamaður hjá JÁ SÆLL í Fjarðaborg.
„Hugmyndin kviknaði fyrir fjórum árum þegar Jónas Sigurðsson í Ritvélum framtíðarinnar hafði samband og vildi halda 20 tónleika hjá okkur á 21 degi. Við segjum alltaf já við Jónas, sama hvað hann fær undarlegar hugmyndir og þessi var gersamlega út úr kortinu, en við ákváðum að prófa.
Það sumar sáum við að þetta væri hægt, það var vel mætt á alla tónleika og hefur verið síðan, við höfum aldrei lent í nokkru floppi og aldrei færri en 40 manns mætt. Eftir þetta ákváðum við að setja okkur það markmið að vera með einhverja tónleika allar helgar í júní og júlí og það hefur gengið vonum framar.“
Hafþór Snjólfur lýsir sumrinu eins og um aðventu sé að ræða, en tónleikaröðin byrjar rólega en svo bætist þunginn í eftir því sem nær líður Bræðslu, með fleiri mögnurum og meiri ljósum. Hann segir sumarið leggjast einstaklega vel í menn.
„Þetta verður æði, frábært veður sem helst líklega í allt sumar. Það er allavega sama hvernig það verður, það er alltaf gott veður daginn sem Bræðslan er, það hefur aldrei klikkað.
Í fyrra var laugardagurinn um Bræðsluhelgina eini góði dagur sumarsins, það hafði rignt hér eldi og brennisteini fram að honum, en þá stytti upp og byrjaði aftur að rigna á sunnudaginn. Við vorum búnir að undirbúa okkur eins og um kjarnorkuvetur væri að ræða, en þetta er alveg magnað, það er alltaf gott veður þennan dag og á því verður engin undantekning í ár,“ segir Hafþór Snjólfur ákveðinn.
Tónleikarnir með Svavari Knúti hefjast klukkan 21:30 annað kvöld í Fjarðaborg. Nánar má fylgjast með Facebooksíðu Fjarðarborgar hér.
Kammerkór Egilsstaðakirkju verður með tvenna tónleika um helgina, annars vegar í Frystihúsinu á Breiðdalsvík á morgun, laugardag klukkan 20:00 og hins vegar í Egilsstaðakirkju á sunnudaginn klukkan 20:00.
Laugardagskvöldið verður skemmtilegt í Valaskjálf, en Dimmusöngvarinn Stefán Jakobsson og gítarleikarinn Andri Ívarsson sem margir þekkkja sem dúettinn „Föstudagslögin“ halda tónleika þar sem hefjast klukkan 22:00. Þeir félagar koma til með að spila öll bestu lög í heimi í órafmögnuðum útgáfum, þungarokk, hugljúfar ballöður, popptónlist og allt þar á milli.