Helgin: Uppskeruhátíð og lokatónleikar LungA á morgun

Mikið er um að vera á Austurlandi um helgina en einna hæst ber uppskeruhelgi listahátíðarinnar LungA á Seyðisfirði, þá eru tónleikar bæði í Valaskjálf og Fjarðarborg auk þess sem haldið er uppá bókaútgáfu og austfirsk knattspyrnulið há kappleiki víða um land.


LungA, Listahátíð ungs fólks á Austurlandi, er hátíð þar sem sköpun, listum og menningu er fagnað með námskeiðum, fyrirlestrum og öðrum viðburðum. Hátiðin hefur staðið síðan á mánudag en lýkur með uppskeruhelgi í dag og á morgun.

Í kvöld klukkan 20:30 hefjast sýningar sem eru fjölbreyttar að vanda en Lokasýningin sjálf, uppskeruhátíð námskeiða vikunnar, hefst klukkan 15:00 á morgun. Hátíðin nær svo ákveðnum hápunkti með sannkölluðum stórtónleikum annað kvöld á Norðursíldarplaninu á Seyðsfirði en þar koma fram hljómsveitirnar og tónlistarmennirnir Human Woman, Fufanu, Ayia, Fura, GKR og Hatari.

Fleiri tónleikar verða haldnir í fjórðungnum um helgina. Deep Purple tribute bandið Purpendicular heldur tónleika í Valaskjálf á Egilsstöðum á laugardagskvöld og á sama tíma heldur hljómsveitin Austurland að glettingi U2 tribute tónleika í Fjarðarborg á Borgarfirði.

 

Í dag klukkan 17:00 verður haldið uppá útgáfu bókarinnar 101 Austurland - Tindar og toppar, eftir Skúla Júlíusson, í Bókakaffi Hlöðum. 

 

Ausfirsku karlaknattspyrnuliðin eiga öll leiki um helgina en kvennaliðin í fjórðungnum öttu kappi í gærkvöldi en þá lutu Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir í lægra haldi fyrir Einherja 2-0 á Vopnafjarðarvelli.

Leikir karlaliðana fara allir fram klukkan 14:00 á morgun. Í Inkasso-deildinni mætir Fjarðabyggð Haukum á Ásvöllum í Hafnarfirði, Huginn á heimaleik við Selfoss og Leiknir tekur á móti HK í Fjarðabyggðarhöllinni. Höttur sækir Gróttu heim í 2. Deildinni og Einherji tekur á móti Davík/Reyni í 3.deild.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar