Helgin: Út úr skápnum – þjóðbúningana í brúk!
Handverk og hefðir – Hvaðan komum við? Hvert stefnum við? Hvar liggja tækifærin? er yfirskrift málþings sem fram fer í Minjasafni Austurlands á laugardaginn. Þar verður fjallað um þjóðlegt handverk og hefðir í víðum skilningi og gestum gefst einnig kostur á að fá ráðgjöf varðandi þjóðbúninga frá sérfræðingum. Þá verður sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur víða á Austurlandi um helgina.
Það eru Minjasafn Austurlands og Hallormsstaðaskóli sem standa fyrir málþinginu í samstarfi við Heimilisiðnaðarfélag Íslands. Málþingið er upphaf á samstarfi um námskeiðahald sem þessar stofnanir hyggjast fara í. „Söfn hafa ákveðið fræðsluhlutverk og höfum við fyrst og fremst verið að sinna leik- grunn- og framhaldsskólum í því sambandi. Okkur langaði til að glæða fullorðinsfræðsluna lífi og því settum við okkur í samband við Hallormsstaðaskóla til að athuga hvort við gætum e.t.v. fundið einhvern samstarfsflöt. Úr því varð að við myndum standa saman að námskeiðum í samstarfi við Heimilisiðnaðarfélag Íslands þar sem þjóðlegar hefðir og aðferðir verða í hávegum,“ segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir, safnstjóri Minjasafns Austurlands.
Elsa Guðný segir málþingið vera einskonar upptakt námskeiðunum sem verða haldinn þegar líður á haustið. „Fyrirlesarar koma víða að af landinu en eiga það allir sameiginlegt að brenna fyrir íslensku handverki og handverkshefðum. Margrét Valdimarsdóttir, formaður Heimilisiðnaðarfélagsins flytur erindi sem ber yfirskriftina „Hamingjan býr í handverkinu“, Kristín Vala Breiðfjörð formaður þjóðháttafélagsins Handraðans ætlar að kynna starfsemi þess fyrir okkur og svo mun Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir, ein af Spunasystrum, fjalla um nýtingu á eigin afurðum svo eitthvað sé nefnt,“ segir Elsa Guðný.
Að málþingi loknu verður svo boðið upp á viðburð sem nefnist „Út úr skápnum – þjóðbúningana í brúk!“. Viðburðurinn er haldinn í samstarfi við Heimilisiðnaðarfélagið en félagið hefur staðið fyrir sambærilegum viðburðum víða um land. Eins og nafnið gefur til kynna snýst hann um að ná þjóðbúningum landsmanna út úr skápunum og koma þeim í brúk.
„Þarna gefst fólki einstakt tækifæri til að koma með búningana sína og fá ráðgjöf frá sérfræðingum í búningasilfri og búningasaumi um allt sem viðkemur þjóðbúningum, t.d. um varðveislu, lagfæringar, breytingar, hvernig eigi að klæðast þeim og fleira. Það er til dæmis algjörlega tilvalið fyrir búningaeigendur að koma með búninginn og láta yfirfara hann fyrir 17. júní,“ segir Elsa Guðný
Sjómannadagurinn á Austurlandi
Vegleg dagskrá er víða um fjórðunginn í tilefni sjómannadagsins á sunnudaginn;
Eskifjörður
Norðfjörður
Djúpivogur
Seyðisfjörður