![](/images/stories/news/2016/petur_kjerulf_treyja.jpg)
Hengdu upp risatreyju í minningu Péturs
Vinir Péturs Þorvarðarsonar Kjerúlf hengdu nýverið upp risatreyju merkta honum í aðalsal Íþróttahússins á Egilsstöðum. Tíu ár eru liðin um þessar mundir frá því að Pétur týndist á Möðrudalsöræfum.
Treyjan hangir uppi við hlið stigatöflunnar og ber númerið 18 sem var númerið hans Péturs. Hann var duglegur íþróttamaður og æfði meðal annars handbolta, fótbolta og körfubolta með Hetti.
Í loks sumars 2006 voru haldnir ágóðatónleikar í minningu Péturs. Vinir hans hafa haldið utan um og ávaxtað sjóðinn sem þar varð til með það að markmiði að nýta hann í eitthvað sem tengdist íþróttum eða hreyfingu.
Í fyrra var uppbygging frisbígolfvallar á Egilsstöðum styrkt og afgangurinn af sjóðnum nýttur í treyjuna sem áberandi minnisvarða um Pétur. Hún var afhjúpuð í samstarfi við körfuknattleiksdeild Hattar.
Pétur hvarf frá Grímsstöðum á Fjöllum aðfaranótt sunnudagsins 14. maí 2006. Víðtæk leit var gerð að honum sem lauk þegar hann fannst látinn að kvöldi 21. maí. Hann fannst við Langafell á Hauksstaðaheiði, skammt frá upptökum Selár í Vopnafirði í um 27 km fjarlægð í loftlínu frá Grímsstöðum.
Pétur hafði farið þaðan gangandi úr gleðskap. Hann var ölvaður en hraustur íþróttamaður og gekk lengra en skipuleggjendur leitarinnar gerðu ráð fyrir í upphafi.
Fjallað var um leitina í Kastljósi RÚV í gærkvöldi þar sem fram kom að björgunarsveitarmenn hefðu lært ýmislegt á henni.
„Menn taka nú mark á öllum vísbendingum á miklu ákveðnari hátt,“ sagði Baldur Pálsson í svæðisstjórn björgunarsveitanna á Austurlandi.
Rifjað var upp hvernig fjöldi manns, ekki bara úr björgunarsveitunum, kom að leitinni. „Þessi leit reyndi á allt samfélagið á Austurlandi,“ sagði Baldur.
Mynd: Atli Berg Kárason