![](/images/stories/news/2016/kvennareid_vopna.jpg)
Hestamennska í höndum kvenna á Vopnafirði
Konur á Vopnafirði eru virkar í félagsstarfi Hestamannafélagsins Glófaxa. Kvennareið, sem farin er nokkrum sinnum á ári, nýtur þar mikilla vinsælda. Forsprakkinn segir kvennareiðina líka fyrir karla en þeir verði að hlíta skilyrðum um klæðaburð og farða sem settar eru.
Farið var í fyrstu kvennareið ársins í lok apríl. Þrátt fyrir snjó og kulda voru 12 konur mættar og lagt var á stað í vel skipulagðan reiðtúr í kringum Refsstað með bjórstoppi á leiðinni.
Á meðan var formaður Glófaxa, Halldór Jónasson, ásamt grillmeistara frá Sláturhúsi Vopnfirðinga Sören Jeppesen að sjá um að kvöldverðurinn væri tilbúinn þegar hópurinn kæmi til baka. Hesthúsið og hnakkageymslan breyttist í veislustofu, nokkrar konur úr þorpinu og nágrannar bættust við og stemmingin var þveröfug við veðurfarið úti - hlý og skemmtileg.
Á Vopnafirði hefur hestamennska aukist undanfarin ár síðan hestamannafélagið Glófaxi var endurlífgað fyrir rúmum 15 árum. Eftir að Berglind Sigurðardóttir flutti í Refsstað frá Ólafsfirði fyrir nokkrum árum, hefur heldur betur færst líf í félagsstarfið hjá Glófaxa.
Reiðnámskeið fyrir börn og fullorðna eru haldin árlega á félagssvæðinu á Skálanesi rétt innan við þorpið. Á Refsstað var gömlu refahúsi breytt í glæsilegt hesthús og komið upp kaffistofu og snyrtingu. Hross eru tekin á hús rétt eftir áramótin og konur á staðnum, úr þorpinu og erlendis frá byrja að temja, þjálfa og ríða út.
Farið er í kvennareið nokkrum sinnum á ári og karlareið einu sinni til tvisvar. Jónsmessureið og bæjareið eru fastir viðburðir en í bæjareið er riðið á milli bæja í sveitinni og jafnvel í önnur byggðarlög. Þessi reið er gjarna farin seinnipart sumars og fá hrossin þar góða þjálfun fyrir göngur haustsins.
Síðustu ár hefur „Kvennareiðin“ orðið sífellt vinsælli hjá konum á staðnum, en hún er meðal þess sem Berglind hefur innleitt hjá félaginu.
Berglind segir karla vitaskuld velkomna í kvennareiðina. Þeir verði bara að virða að hún er fyrir konur og koma þannig búnir, til dæmis með varalit, í pilsi og með sítt hár. Hingað til hafi enginn af körlunum sem stundi hestamennsku á Vopnafirði haft tíma eða kjark til að taka þátt en það komi kannski með hækkandi sól.