Hjálpar Austfirðingunum með hugmyndirnar upp á næsta stig

Katrín Jónsdóttir, verkefnisstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Djúpavogi, hefur undanfarnar vikur þvælst um Austurland til að kynna þjónustu stofnunarinnar í fjórðungnum. Hún segir Austfirðinga uppfulla af hugmyndum.


„Já, þeir eru frjóir. Það er eiginlega alltof mikið að gera hjá mér,“ segir Katrín. Hún er búin að heimsækja Seyðisfjörð, Norðfjörð, Borgarfjörð og Vopnafjörð. Næst á dagskránni er fundur 23. nóvember á Havaríi að Karlsstöðum Berufirði.

„Þar eru frjóir og flottir frumkvöðlar sem hafa þróað áfram fjölda hugmynda. Þar er mikil frumkvöðlastarfssemi starfrækt og því tilvalið að halda kynninguna þar.“

Á fundunum hefur Katrín farið yfir lykilþætti í þjónustu stofnunarinnar á svæðinu, svo sem stuðning við uppbyggingu viðskiptaáætlana. „Það hafa ýmsar góðar pælingar sprottið út frá fundunum því hér er fólk með hugmyndir sem það vill ræða áfram. Fólk getur viðrað hugmyndir sínar við mig og ég hjálpa til við að koma þeim upp á næsta stig.“

Katrín tók við starfinu í janúar og kann vel við sig á Djúpavogi. „Mér líkar vel við staðinn og vinnan er fjölbreytt því hún felur í sig að hitta skemmtilegt fólk.

Ég er með allt Austurland undir og hef farið allt frá Vopnafirði. Mér er ætlað að sýna fólki með góðar hugmyndir stuðning og jafnvel að ýta af stað nýjum verkefnum með stofnunum og fyrirtækjum á svæðinu.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar