Hjólar frá Blönduósi til Egilsstaða um Siglufjörð

Snorri Már Snorrason, fyrrverandi formaður Parkinsonsamtakanna, hjólar langar vegalengdir til að hveta aðra til að hreyfa sig til að viðhalda góðri heilsu.

Snorri Már greindist með Parkinsonsjúkdóminn fyrir 12 árum síðan. Parkinson er ólæknandi sjúkdómur en helstu einkennin eru stífleiki í vöðvum, skjálfti og skert hreyfigeta. Með markvissri hreyfingu hefur Snorri náð að sporna við framgangi sjúkdómsins og halda betri starfsþrótti og lífsgæðum en ella.

Þar sem aukin hreyfing hefur reynst Snorra svo vel í baráttunni við Parkinsonsjúkdóminn þá vill hann hvetja aðra til að hreyfa sig til að viðhalda góðri heilsu. Með það að markmiði stofnaði hann Skemmtiferðina árið 2012 og hefur hjólað langar vegalendir undir merkjum Skemmtiferðarinnar á hverju sumri síðan.

Snorri lagði af stað frá Blönduósi þann 12. júní síðastliðinn og var kominn á Vopnafjörð í dag þegar blaðamaður náði af honum tali. Hann hefur þegar farið um Siglufjörð, Dalvík og Húsavík og hjólað alls tæplega 600 kílómetra. Hann stefnir á að hjóla yfir hellisheiðina á morgun og ferðalagið ætlar hann svo að klára á Egilsstöðum á fimmtudaginn ef allt gengur að óskum.

Aðspurður segir Snorri ferðina hafa gengið vel ,,Við erum bara búin að fá einn leiðindadag með skítviðri og rigningu, annars hefur gengið mjög vel. En svo hefur líka borgað sig að vera klókur því ég hjólaði til baka frá Bakkafirði til Þórshafnar til að hafa ekki rokið í fangið.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar