Hjörleifur skrifar um Úthérað og Borgarfjörð eystri

Út er komin árbók Ferðafélags Íslands 2008 og er höfundur hennar Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur sem skrifar hér um Úthérað ásamt Borgarfirði eystra, Víkum og Loðmundarfirði. Fallegar ljósmyndir sem flestar eru eftir höfundinn skreyta bókina auk þess sem hún hefur að geyma nákvæm kort af þeim byggðarlögum sem fjallað er um. hjolli_gutt.jpg

Daníel Bergmann annaðist umbrot á bókinni.  Kort í árbókinni eru teiknuð af Guðmundi Ó. Ingvarssyni, að forskrift höfundar hvað örnefni varðar. Auk staðfræðiuppdrátta er þar að finna óvenju margar skýringarmyndir um jarðfræði, lífríki og fornminjar. Prófarkalestur var í höndum ritnefndarmannanna Árna Björnssonar, Eiríks Þormóðssonar og Guðrúnar Kvaran. Þá vann Helgi Magnússon við skráargerð. Jón Viðar Sigurðsson ritstýrði verkinu.
Bókin fjallar um fjölbreytt og einkar áhugavert svæði bæði hvað varðar náttúrufar og möguleika til útivistar. Þar skiptast á eyðibyggðir í hrikalegri umgjörð og nærliggjandi svæði með byggð í blóma.
Loðmundarfjörður og Víkur eiga sér langa og merkilega byggðarsögu sem náði fram yfir miðja síðustu öld. Nú njóta þessir staðir með sitt einstaka náttúrufar mikilla vinsælda meðal útivistarfólks. Sama má segja um Borgarfjörð eystra með sinni margrómuðu umgjörð. Bókarhöfundi tekst á sinn einstaka hátt að leiða lesandann um landið og flétta á skemmtilegan hátt saman sögu og lýsingu á náttúrufari og mannlífi. Frá Borgarfirði liggur leiðin til Egilsstaða þaðan sem lagt er upp í ferð um byggðir Úthéraðs: Eiðaþinghá, Hjaltastaðaþinghá, Fell, Hróarstungu og Jökulsárhlíð allt út á Standandanes norðan Héraðsflóa. Þetta söguríka svæði býr yfir mikilli náttúrufegurð og fjölbreyttu gróðurfari og dýralífi sem endurspeglast vel í fjölmörgum myndum og uppdráttum. Útkoman er glæsileg bók sem er í senn fræðandi og hvatning til lesandans að kynna sér svæðið af eigin raun.
Hjörleifur Guttormsson hefur nú skrifað sex árbækur fyrir Ferðafélag Íslands og hafa þær allar notið mikilla vinsælda. Í þeim er fjallað um landið austanvert frá Lómagnúp norður í Öxarfjörð og bera þær heitin Austfjarðafjöll (1974), Norð – Austurland, hálendi og eyðibyggðir (1987), Við rætur Vatnajökuls (1993),  Austfirðir frá Álftafirði til Fáskrúðsfjarðar (2002),  Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar (2005) og nú bætist við Úthérað ásamt Borgarfirði eystra, Víkum og Loðmundarfirði (2008).  Bækurnar fást allar á skrifstofu FÍ, nema árbókin 1974 sem er uppseld.
Á útgáfuári eru árbækur Ferðafélags Íslands sendar félagsmönnum í Ferðafélaginu en fara í almenna sölu ári síðar. Um átta þúsund félagsmenn eru nú í Ferðafélagi Íslands. Hægt er að ganga í félagið og fá þá nýir félagar árbókina senda heim, en árgjaldið er kr. 4.900
Árbækur Ferðafélags Íslands hafa komið út í óslitinni röð frá árinu 1928 og eru á heildina litið einstæður bókaflokkur um land og náttúru,  í raun altæk Íslandslýsing á meira en tólf þúsund blaðsíðum. Hefur Ferðafélagið alla tíð kostað kapps um að gera þær sem best úr garði. Ritröðin endurspeglar samfellu í efnistökum þar sem náttúra, saga og menning eru í öndvegi og framfarir í ljósmyndun og prentun endurspegla kröfur hvers tíma. 
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.