Hljómsveitin Valdimar heldur tónleika í fyrsta skipti á Eskifirði

Hljómsveitin Valdimar kemur austur og heldur tónleika í Valhöll á Eskifirði næstkomandi laugardag, þann 21. september. Þeir félagar eru vera virkilega spenntir fyrir tónleikunum en þetta er í fyrsta sinn sem hljómsveitin kemur fram á Eskifirði.

 

Tónleikarnarnir í Valhöll eru hluti af tónleikaröð hjómsveitarinnar en þeri hafa verið að spila víðsvegar um landið undanfarnar vikur. „Strákarnir eru bara í hörku formi. Þeir voru líka á Tónaflóði Rásar 2 um daginn og eru svo að fara túra um Þýskaland og Sviss núna í oktober. Þeir eru bara rosalega vel spilandi og eiga auðvitað gífurlega mikinn og góðan katalóg af lögum. En þeir hafa ekki verið að sinna Austfjörðum og Austurlandi eins vel og þeir hefðu viljað og eru því ótrúlega spenntir að koma og spila á Eskifirði. Ég lofa stórkostlegum tónleikum og enginn mun fara ósáttur út,“ segir Árni Kristmundsson umboðsmaður hljómsveitarinar Valdimar.

Þó svo að hljómsveitin Valdimar sé að halda tónleika í fyrsta skipti á Eskifirði þá hefur söngvarinn Valdimar áður komið fram þar. „Ég kom þarna fyrir nokkrum árum og við Ásgeir spiluðum í kirkjunni. Það voru æðislegir tónleikar og góða stemmning. Þetta var mjög náið og skemmtilegt en þegar hljómsveitin mætir þá erum við að tala um miklu stærra dæmi. Meiri power. Svo reynsla mín af Eskifirði er bara mjög góð og ég hlakka til laugardagsins,“ segir Valdimar söngvari og forsprakki hljómsveitarinnar. 

Valdimar bætir við að þetta er ekki eina tenging sín við Eskifjörð. „Afi minn, hann Hermann Eiríksson er frá Eskifirði. Fæddur þar og uppalinn. Það er ekkert svo langt síðan að ég komst að þessu og mér finnst þetta svo geggjað. Ég er auðvitað ættaður frá Eskifrði, maður er að sækja í ræturnar," segir Valdimar sem hlakkar til tónleikanna og lofar góðri skemmtun.

Á efnisdagskránni verða nýrri lög í blandi við eldri en nýjasta breiðskífa hljómsveitarinnar, Sitt sýnist hverjum, kom út í fyrra og vakti mikla athygli og fékk afar góða dóma. Þar eru lög á borð við Of seint, Blokkin og Stimpla mig út sem flestir kannast við. 

Miðasala fer fram á tix.is en einnig verður hægt að kaupa miða við innganginn en hljómsveitin vildi taka það fram að ódýrara er að kaupa miða á netinu en í dyrunum. 

 

Hljómsveitin Valdimar. Mynd: Spessi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar