Hófu ferilinn á vitlausum enda

Karlakórinn Ármenn í Neskaupstað verður formlega stofnaður á næstu vikum en kórinn hefur þó verið starfandi síðastliðið ár.



„Ég hef átt mér þann draum í mörg ár að stofna karlakór,“ segir Egill Jónsson, stofnandi, stjórnandi og undirleikari kórsins.

Egill er menntaður tónlistarkennari og hefur starfað sem slíkur í fjölmörg ár en hann er einnig skólastjóri Tónskóla Neskaupstaðar í dag.

Allir velkomnir og engin inntökupróf

„Segja má að við höfum byrjað á vitlausum enda en við byrjuðum á því að fara í stúdíó og taka upp tvö lög á geisladisk sem gefinn var út til minningar um tónlistarmanninn Ágúst Ármann Þorláksson, allt lög eftir hann.

Ég auglýsti eftir áhugasömum söngmönnum í Fjarðabyggð síðasta vetur og viðbrögðin létu ekki á sér standa, því strax gáfu sig fram um 30 karlar og því var ekkert annað að gera en að hefjast strax handa og hefur kórinn komið nokkrum sinnum fram síðastliðið ár.

Áhuginn er mikill og enn eru að bætast við karlar í kórinn, bæði vanir söngmenn og óvanir. Allir eru velkomnir og enginn þarf að gangast undir inntökupróf, bara mæta og syngja. Ég reyni að hafa þetta á léttu nótunum og skapa skemmtilegt andrúmsloft, því ef að við höfum ekki gaman af þessu sjálfir getum við ekki búist við því að nokkur njóti þess að horfa og hlusta á okkur.“


„Ég vil alls ekki vera einhver einræðisherra“

Nóg er fram undan hjá kórnum. „Stofnfundurinn verður núna í janúar eða febrúar með öllu sem því fylgir. Það er nauðsynlegt að mynda stjórn og skipa í hlutverk, ég vil alls ekki vera einhver einræðisherra.

Við stefnum svo á að syngja á tónleikum í maí og einnig ætlum við að syngja á gömludansaballi í samstarfi við aðra, karlakór og hljómsveit. Það er svolítið sérstakt að tala um að karlakór „syngi á balli“ en þetta hefur verið gert víða og gefist vel.“


Draumurinn að fá að syngja í kórnum sjálfur

Egill hefur bæði sungið í blönduðum kór og karlakór gegnum tíðina og segir að sér þyki hvort tveggja skemmtilegt en karlakórinn höfði enn frekar til sín.

„Kór er frábær félagsskapur en það er mjög langt síðan karlakór var starfandi í Neskaupstað, þannig að tími var kominn til að stofna karlakór og þó fyrr hefði verið. Vandamálið hjá mér er að ég er bæði stjórnandi og undirleikari en draumur minn er að komast úr öðru hvoru hlutverkinu og helst báðum með tíð og tíma svo ég fái sjálfur að njóta þess að syngja með kórnum. En til þess að svo geti orðið þarf ég að ná að virkja fleiri með mér.

Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og ég er virkilega stoltur af mínum mönnum sem hafa staðið sig mjög vel þar sem þeir hafa komið fram til að syngja. Það er einhver óútskýrður sjarmi yfir karlakórum – en eins og eldri kona sagði við mig eftir jólatónleika í íþróttahúsinu í Neskaupstað í desember síðastliðinn: „Að sjá þrjátíu karla á sviði í hvítum skyrtum með rauðar slaufur, það er eitthvað svo sætt við það.“

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar