Hreint ágæt berjaspretta þrátt fyrir rysjótta tíð í sumar

Nóg er af aðalbláberjum, bláberjum og krækiberjum víða á Austurlandi þrátt fyrir heldur rysjótta sumartíð og hreint og beint vetrarhret í byrjun júní. Berin ekki ýkja stór en því bragðbetri að sögn „sérfræðings.“

Sérfræðingurinn sá er Ásdís Jóhannsdóttir frá Egilsstöðum en þrátt fyrir að fara langar leiðir eftir berjum þegar líður að hausti ár hvert vill hún ekki kannast beint við sérfræðingstitilinn. Hún segist þó vita af kostulegum stöðum fyrir aðalbláber og bláber á Héraði sem hún neitar að tjá sig um frekar en hún leggur líka gjarnan land undir fót niður á firði til að finna kræsileg krækiber.

Aðspurð um berjasprettu austanlands þessa vertíðina segir Ásdís að berin á þessum tíma séu vissulega í minni kantinum en nóg sé af þeim.

„Ég er nú bara í þessum töluðu í bláberjalyngi að tína eins og hægt er og það er nóg af þeim. Ég er vön að eltast við bláberin hér á Héraði en fer gjarnan niður í firðina eftir krækiberum sem eru gjarnan stærri og betri þar. Berjasprettan almennt er að mínu viti bara góð núna en berin eru vissulega aðeins minni en maður hefði kosið. Það er ekki beint hægt að sjá að sprettan sé minni nú en almennt gerist þó veðrið hafi verið eins og það var í sumar. Berin jú vissulega aðeins minni en oft áður á þessum tíma en nóg er af þeim og oft bragðast þau betur minni en stærri.“

Mynd af bláberjalyngi sem viðmælandi sendi Austurfrétt fyrr í dag. Nóg er af berjunum þó aðeins vanti upp á stærðina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar