Hressir við gamlar tölvur og afhendir félagsþjónustunni
Tölvuþjónustan Lögurinn á Egilsstöðum hefur hrundið af stað átaksverkefni þar sem óskað er eftir tölvu og tölvubúnaði sem hætt er að nota. Fyrirtækið frískar upp á búnaðinn og afhendir félagsþjónustu Múlaþings til notkunar hjá skjólstæðingum hennar. Fyrstu vélarnar voru afhentar nýverið.„Ég veit að hjá fyrirtækjum er til búnaður sem er ónothæfur eða búið að úrelda en er fullnothæfur fyrir einstaklinga sem ekki eru í mikilli eða þungri vinnslu.
Þess vegna leitaði ég til fólks um að athuga hvort til væri tölvubúnaður á heimilum eða vinnustöðum sem búið væri að leggja en nothæfur. Ég fæ tölvurnar, yfirfer þær, geri við ef þarf, hreinsa og geri þær tilbúnar áður en þær eru afhentar félagsþjónustunni,“ segir Ólafur Arason sem stendur að baki Leginum tölvuþjónustu.
Þrjár tölvur afhentar til félagsþjónustu Múlaþings
Ólafur segist hafa fengið nokkur viðbrögð og borist nægur búnaður til að setja saman þrjár vélar sem afhentar voru til félagsþjónustunnar nýverið. „Margt af þeim búnaði sem ég fékk var ónothæft og fór í endurvinnslu en úr öðru gat ég púslað saman vel nothæfum tölvum. Það sem ég geri er að skipta út hörðum diskum, móðurborðum eða skjákortum ef þarf og bæta við minni, hreinsa vélarnar og setja upp stýrikerfi. Þannig bý ég til eina nothæfa vél úr 2-3 gömlum.“
Félagsþjónustan tók nýverið við einni fartölvu frá fyrirtæki og tveimur borðtölvum. Önnur þeirra er fín leikjatölva. Félagsþjónustan hefur milligöngu um að koma vélunum til skjólstæðinga. „Við vitum að þær eiga eftir að nýtast vel. Við eru meðal annars með fólk í námi. Þess vegna erum við afar þakklát og vitum að skjólstæðingar okkar verða það líka,“ sagði Ingibjörg Þuríður Stefánsdóttir, ráðgjafi í fjölskylduvernd hjá félagsþjónustu Múlaþings, sem veitti tölvunum viðtöku.
Tekur áfram við gömlum tölvum
Verkefnið heldur áfram og þess vegna lýsir Ólafur eftir fleiri tölvum. Hann segir hægt að nýta nær allan tölvubúnað nema helst bleksprautuprentara. Lögurinn veitir fría viðgerðarþjónustu á þeim vélum sem fyrirtækið afhendir. „Ég veit að það er til búnaður úti í geymslu. Þess vegna hvet ég fólk til að athuga hvort ekki sé til eitthvað sem hugsanlega er hægt að nota og koma til okkar.“
Ólafur stofnaði Löginn tölvuþjónustu fyrr á þessu ári en hann hefur um 40 ára reynslu af tölvuþjónustu sem hófst hjá Kaupfélagi Héraðsbúa. „Lögurinn aðstoðar fólk við allt frá því að virkja Facebook eða tengja prentara eða sjónvarp upp í ráðgjöf til einstaklinga eða fyrirtækja við kaup eða sölu á búnaði auk sérhæfingar í uppsetningu öryggismyndavéla.“