Hreyfidagar Fjólu: „Ég hef aldrei séð eftir því að hafa farið í göngutúr“

Fjóla Þorsteinsdóttir, safnvörður og íþróttaþjálfari á Fáskrúðfirði hefur staðið fyrir skemmtilegu framtaki á facebook undanfarið sem hún kallar hreyfidaga. Þar býður hún fólki að skrá hreyfingu dagsins á sinn vegg.

Fjóla ákvað að byrja á þessu til að hvetja sjálfa sig og fólkið í kringum sig til að vera duglegt að hreyfa sig. „Hreyfidagar er hvatningarform til mín, þín og allra til þess að ástunda reglulega hreyfingu við hæfi og getu. Ég byrjaði á þessu í mars og hef haldið áfram vegna fjölda áskorana.“

Fjóla segist vita að svona hvatning geti skipt sköpum fyrir marga. „Ég sannarlega veit að þetta virkar. Ég er sjálf í lokuðum hreyfidagahóp og finnst það hvetjandi. Hugdettan að gera þetta á mínum vegg kom bara sísvona eins og svo margar aðrar og fór í framkvæmd.“

Þátttakan í hreyfidögum Fjólu hefur verið með miklum ágætum „Það eru um 50 manns sem taka þátt daglega, sumir skrifa komment aðrir senda mér í skilaboð,“ segir Fjóla.

Aðspurð hvort hún eigi sjálf alltaf auðvelt með að drífa sig af stað í hreyfingu dagsins segir Fjóla svo ekki vera. „Ég tók þá ákvörðun 1.janúar að hreyfa mig á hverjum degi árið 2019 og það hefur gengið eftir. Stundum þarf ég að tala mig til í að koma mér af stað en æ sjaldnar. Það er nú svo að ég hef aldrei komið heim úr göngutúr og dauðséð eftir því að hafa farið í hann.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar