Hróður Austurland Freeride Festival heldur áfram að aukast

„Ég var að kveðja 30 til 40 manna hóp erlendra gesta á sunnudaginn sem dvaldi hér yfir helgina og hver einn og einasti þeirra sagði við mig „I´ll be back“ svo eitthvað er verið að gera rétt,“ segir Sævar Guðjónsson, vítamínsprautan á bak við Austurland Freeride Festival sem fram fór um helgina.

Metþáttaka var á hátíðinni fyrir ári síðan en hún hefur á skömmum tíma verið að festa sig í sessi meðal fjallaskíðafólks hérlendis og vakið athygli erlendis líka. Freeride-nafnið vísar til skíða- eða brettaáhugafólks sem kýs helst að láta sig húrra niður fjöll og firnindi utan alfaraleiða en ekki á hefðbundnum skíðasvæðum.

Að sögn Sævars var gestafjöldinn nú svipaður og fyrir ári en þó er að fjölga í hóp erlendra gesta sem koma til að njóta austfirskra fjalla og ef marka má umsagnir fólks á samfélagsmiðlum fóru allir vel sáttir heim á leið í kjölfarið.

„Við gerðum þetta nú með örlítið öðruvísi hætti en verið hefur. Við byrjuðum á að fara þriggja daga ferð í Viðfjörð og sú ferð heppnaðist upp á tíu. Fólk var alveg í skýjunum með þann túr og við komum okkur vel fyrir að kvöldi, kveiktum varðeld, horfðum á Norðurljósin og fórum í sánabað. Þetta gat ekki gengið betur. Upphaflega ætluðum við í Vöðlavík en það var bara meiri snjór í Viðfirði þá ákváðum við að breyta og gengum þangað frá Oddsskarðinu. Daginn eftir gengum við svo á fjöllin í kring og skíðað meðal annars niður í Vöðlavík. Þetta var svo gaman að skíðafólkið sem yfirleitt vill vera í brekkunum linnulaust frá morgni til kvölds var svo ánægt og búið á því í lokin að menn vildu fara að halda beint í stuðið og slaka á.

Eins og fyrri ár var jafnframt gert mikið úr skemmtidagskrá fyrir gesti þegar kvölda tók og naut fólks þar meðal annars tónlistar FM Belfast.

Líkt og áður hátíðin styrkt af hálfu Fjarðabyggðar og Austurbrúar og Sævar segir að margir af gestum hátíðarinnar séu stór nöfn í Freeride-heiminum og þeir séu duglegir að pósta á samfélagsmiðla ýmsa. Þannig dreifist hróður Austurlands Freeride Festival ár frá ári vítt og breitt um heiminn. Þetta sé hátíð sem komin er til að vera.

Fjalladýrð Austurlands engu síðri en á mörgum vinsælustu skíðasvæðum heims. Mynd Austurland Freeride Festival

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar