Höttur á barmi falls
Kraftaverk þarf til að körfuknattleikslið Hattar falli ekki úr 1. deild
í vor. Liðið tapaði báðum leikjunum í suðurferð sinni um seinustu helgi.
Þegar þrjár umferðir eru eftir af tímabilinu er Höttur í 9. sæti með fjögur stig. Í 7. – 8. sæti eru lið Hrunamanna og Ármanns með tíu stig. Til að bjarga sér frá falli þarf Höttur að vinna alla leiki sína og treysta á að hvorugt þessara liða nái stigi. Þau mætast í seinustu umferðinni. Höttur tekur á móti Laugdælingum, sem eru fallnir um næstu helgi, heimsækir síðan Ármann og lýkur keppni gegn KFÍ á Egilsstöðum.
Fyrri leikurinn um helgina var gegn Hamri á Selfossi. Heimamenn unnu 95-51 eftir að staðan var 41-32 í hálfleik. Hamarsliðið gerði út um leikinn í þriðja leikhluta en staðan eftir hann var 78-43. Lykilmenn Hattar voru líka hvíldir fyrir mikilvægan fallslag gegn Þór í Þorlákshöfn daginn eftir. Stigahæstur Hattar var sem fyrr Bayo Arigbon, sem skoraði 19 stig og tók 10 fráköst.
Það var í seinasta leikhluta sem úrslitin gegn Þór réðust, en heimamenn unnu 98-91. Eftir fyrsta fjórðung var staðan 26-23, en 48-46 í hálfleik. Fyrir seinasta fjórðunginn hafði munurinn minnkað í 72-71. Bayo átti stórleik, skoraði 41 stig og tók 14 fráköst. Hann fór hins vegar út af þegar hálf mínúta var eftir af leiknum með fimm villur. Björgvin Karl Gunnarsson skoraði 20 stig og Sveinbjörn Skúlason, sem lék með Þór í fyrra, nítján.