![](/images/stories/news/folk/Birgir_Jónsson.jpg)
Hugurinn hefur alltaf sótt heim
Breiðdælingurinn Birgir Jónsson er nýráðinn upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar en hann er einnig í yfirheyrslu vikunnar hér á Austurfrétt.
„Ég er gríðarlega spenntur fyrir því að prófa mig við eitthvað nýtt. Ég er búinn að vera í starfi sem reynir mikið á samskipti og samvinnu og tel að nýja starfið sé líkt því að mörgu leyti,“ segir Birgir, en hann er með BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands, auk kennsluréttinda.
Einnig er hann í diplómanámi í opinberri stjórnsýslu. Hann hefur starfað sem sögukennari í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ frá 2010, ásamt því að leysa af í félagsfræði, tölvunotkun og heimspeki. Einnig var hann sviðsstjóri félags- og hugvísindasviðs síðastliðin tvö ár, starfaði með nemendafélagi skólans og sá um heimasíðu hans
„Það verður gaman að endurnýja kynni við fólkið fyrir austan og kynnast nýju. Ég verð hluti af mjög öflugum vinnustað sem heillar mig mikið. Ég þekki sveitarfélagið nokkuð vel og hef eytt hluta af öllum sumarfríum síðustu ára þar. Ég og konan mín erum bæði að austan og því hefur hugurinn alltaf sótt heim. Fjölskyldur okkar búa þar og því var það stór þáttur í því að ég sóttist eftir starfinu. Það er hvergi betra að vera en fyrir austan og þótt ég sé frá Breiðdalsvík er allt Austurland heima fyrir mér.“
.
Fullt nafn: Birgir Jónsson.
Aldur: 31 alveg að verða 32.
Starf: Sögu-, félagsfræði- og tölvunotkunarkennari í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ.
Maki: Jóhanna Rut Stefánsdóttir.
Börn: Gunnhildur Anna og Hákon Hrafn.
Búseta: Garðabær.
Uppruni: Er upphaflega frá Breiðdalsvík, fór í menntaskóla á Egilsstöðum og síðan lá leiðin suður í háskólanám.
Tæknibúnaður? Er með Samsung Galaxy S6 síma og Dell-tölvu sem vinnan skaffar. Er samt dálítið skotinn í MacBook.
Hver er þinn helsti kostur? Fljótur að tileinka mér nýja hluti og einstaklega skapgóður.
Hver er þinn helsti ókostur? Er ekki nægilega skipulagður en það er allt að koma með hækkandi aldri.
Hvað er það besta við Austurland? Dásamleg náttúra, afslappandi andrúmsloft og allt það frábæra fólk sem býr þar.
Ertu rómantískur? Ég á mín rómantísku móment en ekki ástæða til að lýsa því frekar hér.
Duldir hæfileikar? Matreiðsluhæfileikar mínir eru frekar duldir þar sem það eru ekki margir sem fá að njóta þeirra og flestir myndu líklega halda að ég ráði varla við meira en að steikja hamborgara.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn? Hægeldað nautakjöt með bernaise.
Hvaða réttur er vinsælastur á heimilinu? Pizzan fer alltaf vel í alla.
Hvað er hamingja fyrir þér? Hamingja er að vera í faðmi fjölskyldunnar sama hvar það er.
Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Fyrsta sem mér dettur í hug er Maximilien Robespierre, leiðtogi Jakobína í frönsku byltingunni. Það er svo margt varðandi byltinguna sem ég væri til í að fá svör við sem ég held að hann gæti reddað.
Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Vakna klukkan 6:45, geri morgunverkin og skunda í strætó sem fer 7:24. Kem á vinnustaðinn rétt eftir 8, undirbý mig og síðan byrja kennslustundirnar 8:30. Síðan líða þær ein af annarri þangað til ég fer heim sem er á bilinu 14:30-17:00. Þá tekur heimilislífið við, undirbúa kvöldmat, sinna börnunum þangað til þau fara að sofa. Eftir það tekur sjónvarpsgláp eða vinna við.
Hver er uppáhalds dagurinn þinn í vikunni og af hverju? Miðvikudagur, þá er vinnuvikan hálfnuð og farið að styttast í helgina.
Hver eru þín helstu áhugamál? Fótbolti hefur alltaf verið mitt helsta áhugamál. Aðrar íþróttir fylgja þar á eftir.
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Hreinskilni er mikilvægasti eiginleiki sem hægt er að hafa.
Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju? Líklega að skúra, enda reyni ég að forðast það eftir bestu getu.
Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Þetta hljómar eins og klisja en ég væri til í að það væru engin stríð í heiminum. Það hlýtur að vera hægt að vinna saman og komast að niðurstöðu á eðlilegan hátt án þess að grípa til vopna.
Topp þrjú á þínum „bucket list“? Hef engan svoleiðis en það hefur alltaf verið takmark að komast austur aftur. Síðan eru margar borgir í heiminum sem ég væri til í að heimsækja.
Hvað ætlar þú að kjósa? Síðan ég fékk kosningarétt hef ég kosið fjóra mismunandi flokka og það er ekkert ólíklegt að sá fimmti bætist við. Ég gef ekkert upp hvaða flokkar þetta eru.