Húsin ákveða hvernig dæmt verður

Fegurðarsamkeppni piparkökuhúsa verður haldin í félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði í dag. Stjórnandi keppninnar segir engar fyrirframmótaðar reglur um hvernig húsin eru metin, það verði ákveðið út frá þeim húsum sem berist í samkeppnina.

„Ég var í fyrra með samfélagsbakarí sem hét Herðubrauð og var í desember með litla viðburði til að koma inn í húsið og fá sér kökur og kaffi. Piparkökuhúsakeppnin þá var síðasti stóri viðburðurinn í þeirri röð.

Bakaríið er ekki lengur til í sama formi en keppnin lifir. Í fyrra fengum við bara tvö hús en það tekur tíma að virkja fólk og þess vegna höldum við áfram,“ segir Halldóra Kristín Lárusdóttir, forsprakki keppninnar.

Hún myndar dómnefndina ásamt Lasse Högenhof frá LungA-skólanum og Sóley Guðrúnu Sveinsdóttur, smið en Kamilla Gylfadóttir frá Skaftfelli er kynnir. „Við höfum enga sérstaka flokka í keppninni, fólk kemur með húsin og þau eiginlega ákveða sjálf hvernig þau eru dæmd. Við ætlum þó að veita sérstök nýsköpunarverðlaun.“

Tekið er á móti húsum í Herðubreið milli klukkan 14 og 15 í dag. Úrslitin verða tilkynnt klukkan 16 og þá boðið upp á kanilsnúða og heitt kakó í félagsheimilinu. Aðspurð svarar Halldóra að óljóst sé hvort keppnishúsin verði einnig í boði sem meðlæti. „Það ræðst í samvinnu við eigendur þeirra. Þetta er frekar byggingar- og hönnunarsamkeppni.“

Mynd: Múlaþing

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.