Hvað er hægt að gera til að efla möguleika ungs fólks í dreifbýli?
Þrjátíu manna hópur tekur nú þátt í evrópskri vinnustofu á Reyðarfirði um málefni ungs fólks í dreifbýli. Hugmyndin kviknaði á öðru námskeiði í Bosníu fyrir um ári. Skipuleggjandi segir margt ungt fólk í evrópsku dreifbýli búa við svipaðar aðstæður og hver geti lært af öðrum.
„Við eigum það sameiginlegt að hafa áhuga á málefnum ungs fólks. Það vantar tækifæri fyrir ungt fólk á mörgum dreifbýlissvæðum í Evrópu og við reynum að leggja fram það sem virkar á hverjum stað og fá hugmyndir frá öðrum,“ segir Jóhanna Guðnadóttir sem leitt hefur verkefnið hér heima ásamt Sonju Einarsdóttur.
Þær kynntust tveimur Austurríkismönnum á Evrópunámskeiði í Sarajevo í Bosníu fyrir ári þar sem farið var yfir mótun verkefna og gerð styrkumsókna fyrir evrópsk ungmennaverkefni.
„Þau koma frá Trofaiach, 11 þúsund manna bæ í miðju Austurríki sem byggir á iðnaði og stórri verksmiðju. Við sáum að við höfðum sömu vandamál og þá kviknaði mikið ljós því við sáum að við áttum góða tengingu.“
Á báðum stöðum hefur verið brottflutningur ungs fólks vegna skorts á tækifærum til náms og vinnu en einnig félagsstarfsemi sem er lítil utan framhaldsskóla fyrir ungmenni frá 16 ára aldri. Tækifærin í dreifbýlinu eru oft færri en í stórborgunum. Það leiðir aftur til aukinnar hættu á að einstaklingar einangrist félagslega, leiðist út í óæskilega hegðun.
Alls koma þátttakendur frá fimm löndum, Slóveníu, Póllandi og Bretlandi auk Íslands og Austurríkis. Jóhanna segir að töluvert átak hafi verið að koma hópnum austur. Það hafi verið hægt með stuðningi frá Fjarðabyggð, sem leggi til grunnskólann á Reyðarfirði sem bækistöð og gististað og einstaklingum og fyrirtækjum í kring.
„Stærsti mínusinn í samgöngukerfi Austurlands. Við fengum bíl hjá björgunarsveitinni á Eskifirði til að ferja fólkið fram og til baka því rútuferðir í tengslum við flug eru takmarkaðar.“
Gestirnir una hag sínum vel. „Þau eru rosalega ánægð með umhverfið, matinn og allt.“
Námskeiðið hófst í gær og stendur til mánudags. Hugmyndin er að þátttakendur fari með sér heim upplýsingabækling með verkfærum frá námskeiðinu sem þeir geti til dæmis notað í viðræðum við ráðamenn í heimabyggð.
En það er líka leitað til heimamanna í hugmyndavinnunni. Á föstudaginn, í Reyðarfjarðarskóla, verður hugmyndabasar milli klukkan 15 og 18:30 þar sem íbúum er boðið til samtals.
„Við þurfum hjálp íbúa til að vinna lausnir í málefnum ungs fólks. Við viljum bjóða Austfirðingum í heimsókn og ræða við þá um hvað vanti og hvað sé hægt að gera til að efla möguleika ungs fólks á svæðinu.“