„Hvert fjall er einstakt“

Sjómannsferill Stefáns Viðars Þórissonar hófst um leið og hann lauk grunnskóla. Í tæp tuttugu ár var hann á úthafstogurum á vegum Deutsche Fischfang Union (DFFU), fyrst sem stýrimaður og síðar sem skipstjóri á frystitogara. Túrarnir eru langir en á milli gefast góð frí sem Stefán hefur nýtt í að ganga á nokkur af hæstu fjöllum hverrar heimsálfu.

Stefán er fæddur árið 1980. Þegar hann var að alast upp var enn frystihús og útgerð á Reyðarfirði, þar sem togarinn Snæfugl var aðalstjarnan. Eldri bræður hans tveir voru sjómenn þar og hugur Stefáns stefndi snemma til sjós.

„Leiðin lá á sjóinn. Ég var ákveðinn í því áður en ég kláraði grunnskólann. Ég byrjaði á sjó á Hólmanesinu hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar um leið og ég kláraði grunnskóla. Ég var sjóveikur meira og minna allt sumarið. Það komu tímabil þar sem ég hugsaði hvern andskotann ég væri að velkjast fárveikur um borð. En það var gaman að koma í land, þar jafnaði maður sig og samt sem áður var þetta skemmtilegt.“

Átti að verða einn túr


Stefán kom í land um veturinn, segist hafa lofað foreldrum sínum að hann myndi fara í skóla og fór í Verkmenntaskólann í Neskaupstað. Sumarið eftir fékk hann pláss á Snæfuglinum og var fram á næsta vor. Áhöfninni var þá sagt upp, kvótinn á skipinu var ekki nægur og það var leigt til útgerðar á vegum Samherja í Skotlandi.

Stefán kveðst hafa sóst eftir að fá að fylgja skipinu til Skotlands en fengið, eins og fleiri úr áhöfninni, vinnu á Víði EA. Haustið eftir fór hann í Stýrimannaskólann, síðan aftur á Víði og þaðan yfir á Guðrúnu Þorkelsdóttur frá Eskifirði á rækjuveiðum eftir útskrift úr Stýrimannaskólanum árið 2001.

Guðrúnu var lagt vegna verkefnaskorts og þá fór Stefán á flakk, var um borð í Hrafni Sveinbjarnarsyni GK í tvo túra, síðar Votaberginu frá Eskifirði og fór þaðan á Hólmanesið. Haustið 2003 fékk Stefán boð um að taka við sem annar stýrimaður á Víði EA, en boðið var skilyrt við að hann færi fyrst túr á þýskum togara. „Í janúar 2004 fór ég um borð í þýska togarann Kiel – en ég kom bara ekkert aftur heim á Víði.“

Kiel var gert út af DFFU, útgerð með bækistöðvar í Cuxhaven í Norður-Þýskalandi. Stefán lýsir DFFU sem bæjarútgerð sem komin hafi verið á hausinn þegar Samherji keypti hana og snéri rekstrinum við. „Við fórum norður að Svalbarða og í Barentshafið og mokveiddum. Við unnum eins og brjálæðingar í 70 daga túr og komum í land með fullt skip, 2100 tonn upp úr sjó, 700 tonn af afurðum. Mér bauðst síðan að fara í næsta túr á Austur Grænland sem fyrsti stýrimaður og tók því.

Hannn réðist síðan á systurskipið Wiesbaden og varð skipstjóri þess árið 2005. „Fyrsti túrinn var gríðarlega erfiður veðurfarslega séð sá túr, en veiðin gekk vel þegar loksins var hægt að kasta trolli vegna veðurs.“

Langaði að kynnast Íslandsmiðum


Stefán útskýrir að veðravíti sé við austurströnd Grænlands. Yfir landinu sjálfu sé gjarnan öflug hæð sem þýði að lægðir sem komi að landinu snúist á móti henni og framkalli vindstrengi. Þeir verði sérstaklega öflugir á veturna þegar strengurinn komi langt að. Við þetta bætist síðan sterkur hafstraumur frá norðri til suðurs.

„Þarna verða kannski 10-15 metra háar öldur ef aðstæður verða mjög slæmar, hvergi hægt að komast í var og jafnvel hafís. Eitt sinn flúðum við undan virkilega vondu veðri og komumst inn á Prins Kristjánssund. Til að hitta á sundið þurftum við að beygja 60° upp í vindinn, munurinn var 60° á stýrðri og haldinni stefnu. Skipin í dag eru orðin mjög góð sjóskip, maður fer hægustu ferð og heldur sjó og þá fer yfirleitt ágætlega um mannskapinn. En það er ekkert hægt að veiða og það má heldur ekkert koma upp á þegar verstu veðrin koma.“

Árið eftir varð Stefán skipstjóri á Polonus, öðrum pólskum togara í eigu DFFU, en í janúar 2008 færði hann sig á næsta skip, Odru og var þar skipstjóri í fimm ár. Þá færði hann sig yfir á Kiel sem skipstjóri til 2015 að hann var ráðinn á Norma Mary, skip undir breskri útgerð Samherja. Að lokum fór Stefán yfir á Cuxhaven, nýjan togara smíðaðan fyrir DFFU árið 2017.

Eftir fimm ár á honum, eða árið 2022, gafst Stefáni færi á að verða skipstjóri um borð í frystitogaranum Snæfelli EA. „Ég var búinn að vera 18 ár erlendis í þessum löngu túrum, oft 60-80 dagar. Sá lengsti var yfir 90 dagar. Maður missti jafnvel af heilu árstíðunum hér. Ég var líka búinn að vera víða á veiðum, eiginlega alls staðar annars staðar en á Íslandsmiðum. Það var kominn tími á að bæta þeim inn í reynslubankann.“

Samningurinn við skrattann


Tímann heima í landi nýtir Stefán gjarnan til þess að fara á fjöll og hann hefur klifið tvo af tindunum sjö – sem eru hæstu tindar hverrar heimsálfu. Hann segist hafa alist upp við það sem barn að elta foreldra sína upp í austfirsku fjöllin en skíðaslys sem hann lenti í rúmlega þrítugur breytti viðhorfi hans. Hann braut þar mjaðmarlið. Gert var að honum en fylgjast þurfti vel með áfram vegna þess að hætta var á að skert blóðflæði ylli drepi. Stefán segist þarna hafa farið að hugsa sín mál. „Hvað ef ég hefði þurft gervilið, rétt rúmlega þrítugur? Kannski kominn í hjólastól með allt lífið fram undan.“

Hann segist hafa fengið það í gegn eftir um ár að skrúfurnar yrðu fjarlægðar og þar með fann hann minna til. Í millitíðinni hafði hann tekið þá ákvörðun eða „samið við skrattann“ að hann myndi ekki „sitja á rassgatinu heima í fríum ef allt yrði í lagi.“ Útivistin varð fyrir valinu því á öðrum tímum væri hann lokaður um borð í togara. Það hafi líka verið kjörið á Austfjörðum með fjölda fjalla allt í kring.

„Þetta er paradís. Fjöllin okkar eru einstaklega formfögur og miklir fjallasalir. Hvert fjall er einstakt þannig að ég hef ekki einblínt á neitt eitt heldur viljað prófa alla flóruna. Þess vegna er ég búinn að ganga upp á þau öll. Þótt Grænafellið sé ekki mikið eða formfagurt þá fer ég reglulega upp á það til að halda mér í formi. Annars eru Dyrfjöllin alltaf í ákveðnu uppáhaldi, Halakletturinn á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar og Snæfuglinn, á milli Reyðarfjarðar og Vöðlavíkur.“

Hæstu tindarnir


Hugur Stefáns stefndi á fleiri fjöll og í byrjun árs 2020 gekk hann á Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku, sem var eins konar 40 ára afmælisferð hans. Ferðahlé varð í Covid-faraldrinum en þegar um tók að hægjast í honum fór Stefán að huga að næstu ferð, í félagi við Skúla Júlíusson og Lindu Pehrsson, fjallafólk á Egilsstöðum.

„Haustið 2021 og í ársbyrjun 2022 undirbjuggum við ferð á Elbrus í Rússlandi, hæsta fjall Evrópu. Við vorum búin að græja flug og ég hafði farið í rússneska sendiráðið til að fá vegabréfsáritun. Þá braust Úkraínustríðið út og þar með var úti um það ævintýri.“

Fyrir rúmu ári rákust þau á aðra ferð undir stjórn Leifs Arnar á Aconcagua í Argentínu, hæsta fjall Suður-Ameríku. Þau bókuðu ferðina og hófu undirbúning. Ferðin var farin í byrjun þessa ár. „Það fjall er um kílómetra hærra (6.962 metrar) en Kilimanjaro og þar með töluvert erfiðra.“

Allir lenda í mótlæti


Það er ekki sjálfgefið að komast á toppinn. Smáatriði geta gert útslagið um hvort hann næst eða ekki. Í fjallabúðunum á Aconcagua gekk flensa og segist Stefán hafa sprittað sig ótt og títt til að verjast henni. Hann slapp við hana en segir að allir lendi á einhverjum tímapunkti í mótlæti í svona erfiðum ferðum.

Það er ekki nóg að vera bara í góðu líkamlegu formi heldur þarf maður að vera tilbúinn að takast á við mótlæti. Maður er vanur því eftir 25 ár á togara að þurfa að takast á við náttúruöflin, þannig ég undirbý mig ekkert sérstakt andlega fyrir svona ferðir. Ég fékk vott af magapest, eins og er mjög algengt í þessari hæð, aðrir fá hausverk eða slík leiðindi. Ég komst á toppinn að þessu sinni en það er ekki sjálfgefið að það takist næst.“

Stefán bætir því að það að komast alla leið á fjallið sé aðeins hluti af upplifun ferðarinnar, einn dagur á þremur vikum. „Þó maður fari ekki upp þá skiptir það kannski ekki öllu því ferðin gefur manni svo mikið. Það er hægt að reyna sitt besta og fara sáttur heim.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar