Hvött áfram af hárinu
Á veggjum myndlistamiðstöðvarinnar Skaftfells á Seyðisfirði er nú sýningin „Hársbreidd“ með verkum Nínu Magnúsdóttur. Þar notast hún við hár sitt og fjölskyldunnar sem efnivið og innblástur við listsköpunina. Verkin vann hún í kjölfar skriðufallanna á Seyðisfirði í desember 2020.„Í listsköpunarferlinu fer maður í samtal við efnið. Ég upplifði sterkt að ég og hárið mitt værum saman í þessari vinnu. Verkin koma út úr þessu samtali. Ég hlustaði á hvað hárið vildi gera, þótt mín rödd komi þar líka sterkt inn,“ segir Nína í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.
Hún rekur að hár hafi í gegnum tíðina nýst við listsköpun. Forn-Grikkir hafi teiknað línur í leirvasa með hári. Þá hafi það oft birst í pólitískum átökum, svo sem í stríðum og í haust í mótmælunum í Íran.
Hárið hefur líka sína eiginleika, mismunandi liti og áferð sem breytast eftir æviskeiðum. „Það hefur sinn karakter – eins og við öll,“ segir Nína. „Þetta er efni sem vex jafnvel áfram eftir að við deyjum,“ segir Nína sem safnaði hárum af fjölskyldu sinni í verkin.
„Ég var ekki að rífa hár mitt heldur sankaði saman því sem varð eftir í burstanum. Síðan fékk ég líka það sem féll til ef eitthvert okkar fór í klippingu. Ég var ekki í vandræðum með að fá efni og það góða er að þetta er endurnýjanleg auðlind.“
Munaði hársbreidd
Titill sýningarinnar „Hársbreidd“ vísar ekki bara til efniviðarins, heldur orðsins sem við notum um þegar munur er lítill sem enginn. Verkin vann Nína í kjölfar skriðufallanna í desember 2020. Þar munaði hársbreidd að illa færi fyrir fjölskyldu Nínu, maður hennar og sonur sluppu naumlega en skriðan stórskemmdi hús þeirra, Þórshamar. Nína hafði skroppið stuttlega í búðina og var þar akkúrat þegar skriðan kom niður.
„Feðgarnir stóðu saman á bryggjunni fyrir neðan húsið okkar og sáu húsin allt í kring verða að engu. Maðurinn minn undirbjó son okkar undir að þurfa að hoppa í sjóinn ef húsið okkar færi. Síðan hægði aurflóðið á sér og þeir hlupu yfir. Á meðan þessu stóð var ég hinu megin í bænum. Mér fannst hræðilegt að vera ekki hjá þeim og reyndi að komast til þeirra þannig ég keyrði til móts við óvissuna yfir þær lokanir sem voru á leiðinni,“ segir hún.
Fjölskyldan bjó fyrstu sex mánuðina á eftir í öðru húsi í bænum. Þar urðu mörg verkanna til. „Skriðurnar eru ekki beintengdar verkunum sem umfjöllunarefni en hjá mér varð tilfinningalega mikil þörf fyrir að skapa. Það fólst einhver úrvinnsla úr áfallinu í því, það var frelsun að vera ekki að stöðugt að hugsa um þessa atburði.“
Sýningin er líka kveðja til Seyðisfjarðar því fjölskyldan flutti um áramótin suður til Reykjavíkur eftir viðvarandi óvissu um framtíð Þórshamars. „Við höfum fengið mjög óljós skilaboð í þessu langa ferli, um hvað við megum og hvers sé að vænta. Þetta varð til þess að við þurftum að taka ákvörðun. Þetta er ein af þeim stöðum sem lífið og pólitíkin setur mann í og mig langar að taka það fram að ég er ekki sátt við vinnubrögð Múlaþings.
Þetta breytir ekki því að við elskum Seyðisfjörðum. Við tókum Þórshamar að okkur og hlaupum ekki frá húsinu, við munum koma aftur til að hlúa að því enda yndislegt að vera þar.“
Sýningunni lýkur um næstu helgi.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.